Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Page 104
H j a l t i Þ o r l e i f s s o n
104 TMM 2018 · 2
hvað sem liði hinum sannsögulega bakgrunni: „Ýms fyrirbrigði í íslensku
þjóðlífi síðustu ára urðu mjer hvöt til að vinna þetta verk. Sagan um Sölva-
eðlið er nútíðarsaga, þótt hún gerist fyrir nokkrum áratugum.“8 Enn fremur
sagðist hann vilja birta Sölva í allri sinni nekt og hefði því markvisst orðið
að varpa frá sér allri miskunnsemi. Þá var hann harðorður í garð Sölva,
einkum í útlistunum sínum á því sem hann kallaði „Sölvaeðlið“ sem fólgið
væri í þörf oflátunga til að hreykja sér með loginni frægð og krefjast alls af
öllum öðrum en sjálfum sér.9 Yfirlýst markmið hans var því ekki beint að
aumkast yfir hlutskipti einstaklinga á borð við Sölva heldur öllu heldur að
áfellast lífsviðhorf þeirra og deila á þá sem honum fundust nú til dags taka
sér þá til fyrirmyndar.
Hér á eftir verður leitast við að skýra frekar þá mynd sem dregin er upp
af Sölva Helgasyni í Sóloni Islandusi. Tekið skal fram að tilgangurinn er
ekki að eigna Davíð skoðanir eða heimfæra upp á hann sjónarmið sem fram
koma í þessu verki hans. Ómögulegt er að fullyrða um fyrirætlanir hans
sjálfs nema það eitt sem hann kaus að halda á loft í aðdraganda útgáfunnar,
að gildi aðalpersónunnar mættu sín að hans mati of mikils í samtímanum
á 20. öld. Þau ummæli varpa ljósi á kjarna ritsins en þegar öllu er á botninn
hvolft er hugmyndafræðin sem í því endurspeglast, sú afstaða sem þar birtist
til Sölva auk ýmissa einkenna á orðræðu sögumanns, svo sem um grund-
völl íslensks samfélags, í anda viðhorfa sem voru mun almennari á fjórða og
fimmta áratug síðastliðinnar aldar en á 19. öld, hvað sem líður tilraunum til
sögulegrar nákvæmni. Í fyrstu verður þó gripið niður í annað skáldverk um
Sölva, eftir Elínborgu Lárusdóttur skáldkonu (1891–1976), og athygli vakin
á ólíkri túlkun hennar og Davíðs á sama manninum. Hennar nálgun hefur,
þegar á allt er litið, ef til vill orðið áhrifameiri í þeirri ímynd af honum sem
hefur fest sig í sessi á síðustu árum.
Hinn ofurmannlegi snillingur
Á millistríðsárunum var talsverður áhugi á flökkurum eins og Sölva sem sett
höfðu svip sinn á bændaþjóðfélag fyrri tíðar og því fer fjarri að Davíð hafi
verið sá eini sem velti lífi þeirra og stöðu fyrir sér. Í upphafi 20. aldarinnar
voru þeir að hverfa á braut og virtust margir sjá eftir þeim, samhliða þeim
breytingum sem voru að eiga sér stað í landinu með aukinni nútímavæðingu,
um leið og aðrir voru fegnir að vera lausir við þá.10 Sumt af því sem tekið var
saman á þessum árum, burtséð frá sögu Davíðs, virðist hneigjast til að hefja
þá til aukinnar virðingar, horfa fram hjá afbrotum þeirra og skýra ófarir
þeirra með skilningsleysi og hörku samtíðarinnar.11 Í þriggja binda skáld-
verki Elínborgar Lárusdóttur, Förumönnum, frá árunum 1939–1940 er þetta
tilfellið en síðasta bindið helgar hún Sölva Helgasyni og kallar Solon Sokrates.
Elínborg telur slæma framkomu samfylgdarfólks Sölva á 19. öld eiga stóran
þátt í framferði hans meðan hann lifði og í örlögum hans. Æska hans er mið-