Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Page 106
H j a l t i Þ o r l e i f s s o n
106 TMM 2018 · 2
og mögulega hafa þau átt sinn þátt í að stuðla að auknum áhuga á mönnum
eins og Sölva sem létu ekki utanaðkomandi vald beygja sig heldur héldu
áfram að synda á móti straumnum á eigin forsendum, hvað sem í móti blés.
Viðhorf Elínborgar til Sölva fer því saman við hugarfar í landinu á fyrri
hluta síðustu aldar og sú afstaða að hann hafi verið einhvers konar misskilinn
snillingur hefur, eins og fram er komið hér á undan, orðið lífseig. Í ævisögu
hans eftir Jón Óskar (1921–1998), sem er frá árinu 1984, er óhætt að segja að
skilyrðislaus samúð með merkum en niðurbældum listamanni sé til dæmis
afdráttarlaus og alltumlykjandi.17 Þó að Davíð Stefánsson hafi hugsanlega
gælt við svipaða hugmynd í Sóloni Islandusi, þá einkum í fyrri hlutanum,
verður ekki annað sagt en að hann hafi á heildina litið tekið annan pól í
hæðina og að í meðförum hans verði Sölvi aldrei hinn misskildi listamaður
Elínborgar og Jóns Óskars. Um miðbik sögunnar er reyndar ekki laust við að
afstaða söguhöfundarins breytist og að hann missi þá nokkuð skyndilega alla
vorkunnsemi með honum. Í öllu falli var Davíð óneitanlega dómharðari og
nálgaðist persónuna eftir öðrum leiðum. Til að mynda dró hann enga dul á
alvarleika afbrota Sölva og þegar kemur fram í seinni hlutann er söguhetjan
lítið annað en ribbaldi og nauðgari. Líkt og Elínborg gerði Davíð ekki lítið
úr þeim erfiðleikum sem Sölvi mátti þola í æsku en sá þá í öðru ljósi, setti
þá í víðara samhengi og sættist tæpast á að þar væri komin hin eina sanna
skýring á örlögum hans. Þannig er gefið til kynna, svo sem í upphafsorðum
sögunnar, að allir landsmenn hafi þurft að hafa fyrir lífinu og neyðst til að
temja sér hörku í erfiðri lífsbaráttunni sem síðan hafi stig af stigi þróað þá í
átt að kraftmikilli heildstæðri einingu sem í nútímanum geti loks staðið frjáls
og sjálfstæð.18 Því hafi það ekki verið alslæmt, og satt að segja óhjákvæmilegt
í harðneskjunni allri, að strákar fengju aðeins að kenna á því. Innræti Sölva
hafi hins vegar verið með þeim hætti að hann lét allt sem vind um eyrun
þjóta, tamdi sér ekki þá hógværð og iðjusemi sem voru nauðsynleg gildi við
erfið lífsskilyrði heldur fór sínu fram án tillits til þeirrar félagslegu heildar
sem hann tilheyrði og lét öðrum eftir að sjá fyrir sér.19 Myndin sem máluð
er af sama manninum í skáldsögum þeirra Elínborgar og Davíðs er því ólík.
Niðurstaða Davíðs felur í sér fordæmingu á lífsstefnu hans og hvatningu til
Íslendinga að forðast siðlaust „Sölvaeðlið“ á meðan Elínborg dregur upp
frekar einfalda og gagnrýnislausa mynd af hæfileikaríkum listamanni í
óvægnu og listfjandsamlegu samfélagi fyrri tíðar.
Postuli nýrrar stefnu og hugmyndafræði
Á fjórða áratugnum, þegar Davíð vann að ritun Sólons Islandusar, átti sér
stað gerjun í stjórnmálum hérlendis sem erlendis og algengt að höfundar
gengju til liðs við annan hvorn vænginn. Á tímabili var Davíð veikur fyrir
kenningum sósíalismans og sjást þess merki í sumum ljóðum kvæðabókanna
Ný kvæði (1929) og Í byggðum (1933), en það afhjúpaðist fljótt að hann átti