Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Side 109
TMM 2018 · 2 109
S ó l o n I s l a n d u s – h e t j u s a g a ?
Fyrir vítalistum stóð bóndinn næst „púlsi lífsins“, hinni nærandi og lifandi
móðurjörð sem hann ræktaði af umhyggju og „hlustaði á“ til að geta komið
til móts við allar hennar þarfir. Með alúð sinni og vinnusemi skaffaði hann
sér og sínum þá kjarngóðu fæðu sem hún, ættjörðin, hafði af örlæti sínu ávallt
látið þjóðinni í té.27 Viðhorf í þessa veru smitast út í texta Sólons Islandusar,
meðal annars í því hvernig þéttbýli og dreifbýli er teflt saman, eins og áður
var lýst, og þorpin þá gerð að ímynd hins spillta, óþjóðlega og stefnulausa.
Þankagangur amtmannsins á Möðruvöllum, þar sem Sölvi starfar um stutt
skeið, er í þessa veru en hann „[…] tigna[r] bóndann – traustustu máttarstoð
þjóðfélagsins […]“ (I 294) og fordæmir undirlægjuhátt kaupstaðarfólks gagn-
vart dönskum siðum.
Út frá ofangreindu kemur því ekki á óvart hver hin verðuga fyrirmynd
framtíðarleiðtoga þjóðarinnar er í Sóloni Islandusi. Hún felst ekki í lífs-
gildum sundrungarseggsins Sölva heldur í hinni fullkomnu andstæðu hans,
þeim dugmikla iðjusama stórbónda sem Trausti, hreppstjóri að Skálá, verður
holdgervingur fyrir. Trausti fóstrar Sölva fram á fullorðinsár og vill í hví-
vetna leiðbeina honum sem best hann getur þrátt fyrir litlar þakkir. Hann
stendur traustum fótum í tilverunni og er óumdeildur verkstjóri í sinni sveit
sem lætur ekki truflast af villuljósum nýtískunnar sem sífellt reynir að lokka
til sín íslenska sveitafólkið með innihaldslausum glaumi og glysi. Snemma
í sögunni er honum lýst á minnisstæðan hátt og það tekið fram að hann sé
ekki valinn til trúnaðarstarfs síns með vinsældakosningu heldur sé hann
fæddur til að gegna því: „Hann var ekki síðskeggjaður öldungur […] heldur
maður um þrítugt, borinn til höfðingja, glaðlyndur að eðlisfari og vildi veita
öllum úrlausn, sem til hans leituðu.“ (I 45) Trausti aðstoðar undirsáta sína af
samviskusemi en er um leið meðvitaður um mikilvægi þess að hvetja þá til
dáða og ýta undir sjálfsbjargarviðleitni þeirra:
Hann læddist ekki […] í rökkrinu, heldur kom um hádaginn, svo að allir gætu séð,
hver þar væri á ferð. Alstaðar fór hann óhræddur ferða sinna og átti víða erindi. Var
honum lítt gefið um vol og vífilengjur, hlýddi þó á skýrslur annarra og tillögur og
mat að verðleikum. Hafa vildi hann að undirstöðu og bakhjarli hvers máls það, er
sannast reyndist, hvort sem öðrum líkaði betur eða ver. Veifiskati var hann enginn,
en fastur fyrir og trygglyndur og harðvítugur, mætti hann mótspyrnu. Svikum og
sérhlífni kunni hann illa, hvatti amlóða til sjálfsbjargar, en var þó athvarf margra
vandræðamanna. (I 95)
Trausti reynir að fá Sölva til að sjá sig um hönd og vinna fyrir lifibrauði sínu.
Spekingurinn lætur sér fátt um finnast, þiggur ekki ráð og velvild hrepp-
stjórans og baktalar hann í eyru manna af sínu sauðahúsi. „Amlóðunum,
sem ekki geta fetað í fótspor atorkumannsins, er það fróun að heyra um
hann spott og níð […],“ (II 97) segir um viðbrögð þeirra sem sperra eyrun við
málflutningi rógberans. En slíkt nagg lætur Trausti sig engu skipta og heldur
starfi sínu ótrauður áfram burtséð frá öllum kjaftagangi.