Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 55
Tunglskinsmjólk
Stór og feit og stolt
troðjúgra komst þú á stöðulinn
Hönd mín hvíldi á herðum þér
Júgur þitt logaði í kvöldsólinni
Þú mændir á húsfreyju
stórum bláum augum
mændir og beiðst
Ég strákpattinn
þakka þér skjöldótta fóstra mín
volduga móðurtákn
Ég freistast til að halda að í þessu ljóði sé fólgið brot af „kvenídeali“ Dags
Sigurðarsonar, mjög svo jarðlægt og móðurlegt.
Dagur er náttúrubarn. Það er kannski sterkasti strengurinn í eðli hans.
Honum er farið eins og franska skáldinu Arthur Rimbaud, en um hann
er sagt að eini tíminn á ævi hans er hann var hamingjusamur hafi verið
snemma á unglingsárum þegar hann flakkaði dögum saman um skógana
og sveitina umhverfis þorpið Charleville þar sem hann bjó, ölvaður af
ástinni og lífinu í náttúrunni. Þegar rómantísku skáldin voru að deyja úr
eftirsjá úti í Kaupmannahöfn ortu þau um íslensku náttúruna. Og þegar
skáldin yrkja um ástina, eins og t.d. Halldóra B. Björnsson, nota þau lík-
ingar úr náttúrunni.
Það er ekki tilviljun að skáldin vísa í náttúruöflin heldur er þar að
verki göldrótt tungutak sem er mál ástarinnar, díalektískt samtal sprottið
upp úr allífinu sem maðurinn er hluti af, sem og hinir lifandi náttúru-
kraffar allt í kringum hann. Þegar menn hætta að lifa nánu samlífi við
náttúruöflin verða þeir náttúrulausir eða taugabilaðir.
Sjálfur var Dagur hálfgerður náttúruvættur.
Lífsmáti fólksins austur á landi og á Vestfjörðum verður Degi eins-
konar mælistika sem hann beitir þaðan í frá á lífið annars staðar.
Sveitamaðurinn þótti löngum hallærislegur í Reykjavík, en Dagur snýr
vörn í sókn. Hann vopnast sveitamannsstílnum og stormar stræti
borgarinnar í lopapeysu og stígvélabússum. Algjör sprengja mitt í
Hollywood-tískuna með brilljantín og lakkskó og svarta mjóa háls-
bindið, hert að hálsinum. Þessi gæi er ekki bara götustrákur úr borg-
inni, hann er með höfuðskepnurnar í för með sér. Þessi stefnuyfirlýsing
gegn borgaraskapnum í klæðaburði var svo aftur tekin upp af hippum
allnokkru síðar.
X- * X-
TMM 2004 ■ 2
53