Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 61
Tunglskinsmjólk
Hún er orðuð með afgerandi hætti, oft brútalt. Ljóðin eru gjarna ort út
frá stóru hlutföllunum, í alheimslegu samhengi:
Himinn og jörð og tittlingur og píka
undirstaða heims.
Þau elskuðust á rústum
heims og skópu nýjan.
Eins og í hinni fornu náttúrutrú skoðar hann karlmanninn sem tákn
himinsins og konuna sem táknmynd jarðar.
í ljóðinu í „Höfuðskepnum“ (Hlutabréf í sólarlaginu) sýnir Dagur nátt-
úruöflin í sinni sterkustu mynd, þau verða táknræn fyrir kynorkuna. í
þessu ofurmyndræna ljóði ríkir samsemd, kraftur og gleði; einskonar
mögnuð og dularfull einingarkennd. Þar er notað líkingamál hinna nátt-
úrulegu krafta með vísunum í íslenska þjóðtrú. Það stílbrigði er gegnum-
gangandi í ljóðum Dags. Hann notar það til að mynda í tengslum við
kynlífslýsingar, einkum í síðustu bókunum þar sem utangarðsmennskan
er farin að setja skýrara mark á skáldskapinn. Það er oft þá eins og Dagur
sé alveg genginn í björg hinnar heiðnu og tröllslegu þjóðtrúar. Svipmót
hans verður stórskorið eins og útilegumanna þjóðsagnanna, nema víða-
vangur hans er stræti og skúmaskot borgarinnar.
Sérstætt og sterkt er ljóðið „Kaupstaðarferð" í bókinni Fyrir Lauga-
vegsgos. Þar bregður Öræfajökull sér hoppandi til borgarinnar og er
flæmdur þaðan burt með háðsglósum smámennanna sem gera hróp að
honum og kalla hann hundaþúfu. Þar finnst mér Dagur vera að lýsa
sjálfum sér og viðtökum borgarmenningarinnar sem neitar að viður-
kenna skapandi máttinn sem í honum býr.
* * *
Sú menning er Dagur fann á unga aldri austur í Hoffelli er nú hrunin og
horfin úr sveitum landsins. Líkamleg vinna eða áreynsla er að miklu leyti
úr sögunni vegna tæknimenningarinnar. Menn komast naumast í sam-
band við líkama sinn lengur, eða sinn innri mátt, nema í gegnum kynlíf
sem í seinni tíð er notað „ad nauseam" af gróðaöflunum. Á náttúru-
lausum tímum er hamast á sexinu. Fegurðin og frelsið er tekið, snúið
niður og gert ánauðugt. Síðan er flaggað innantómri glansímynd.
Degi fannst reykvísk borgarmenning tepruleg á sínum tíma. Núna
hefur það nánast snúist við. Ég er ekki sannfærð um að honum hefði
líkað þessi þróun þrátt fyrir off á tíðum gróft orðfæri í ljóðum hans.
Enda heitist hann ávallt við gróðaöflin. Að endingu veit hann kannski að
TMM 2004 • 2
59