Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Side 92
Dagný Kristjánsdóttir
áfengismeðferð. Allar eru þær á réttri leið núna, meðlimir í AA samtök-
unum, í námi eða störfum, að byggja upp nýja tilveru. Allar hafa þær
skarað fram úr og hlotið frægð og frama vegna fegurðar, tónlistargáfu og
skáldgáfu. Engin þeirra er orðin fimmtug.
Venjulegur lesandi hlýtur að spyrja sig að því í fyrsta lagi hvers vegna
svo hæfileikaríkar og góðar stúlkur hafi orðið fíklar og verið misþyrmt og
misnotaðar? Hann spyr sig mögulega að því hvort þær segi söguna alla
eða dragi eitthvað undan? Hann furðar sig kannski á því hvernig þær geti
sagt opinberlega ffá niðurlægingu sinni og hvað knýi þær til að gera það?
Kannski spyr hann sig líka að því hvort niðurlæging þeirra og þjáningar
komi honum við og hvers vegna hann sé að lesa þessar sögur yfirleitt?
Játningar
Soffía Auður Birgisdóttir bendir á að sjálfsævisagan, sem bókmennta-
grein, eigi rætur sínar að rekja til tveggja meginverka sem komu út með
þrettán alda millibili og voru gerólík. Þetta eru Játningar Ágústínusar
(397-401) og Játningar Jean Jacques Rousseaus (1781/1789). Um þessi
verk segir Soffía Auður: „Ágústínus segir sögu af falli, frelsun og upprisu
og þetta ferli skýtur upp kollinum í ótal síðari tíma sjálfsævisögum og má
meðal annars sjá í þeim verkum sem marka upphaf íslensku sjálfsævisög-
unnar. Rousseau ritar þroskasögu og varnarrit sem einnig gat af sér ótelj-
andi verk svipaðrar tegundar þegar fram liðu stundir.“7
Bandaríski fræðimaðurinn Rita Felski bendir á að píetisminn í Þýska-
landi og púrítanisminn í Englandi á sautjándu öld hafi hvatt mjög til sál-
arrannsókna og innri leitar þar sem engum steini skyldi óvelt í barátt-
unni fyrir þeirri sjálfsþekkingu sem ein tryggði dyggðugt líf og sáluhjálp.
Játningarnar eru birtingarmynd á venju- og trúarhelguðu siðferði og
lögum, segir Rita Felski, þar sem hugtök eins og „samviska“, „sjálf‘, „sekt-
arkennd“ og „synd“ eru í aðalhlutverkum. Þannig má segja að játning-
arnar sýni vel hvernig valdhafarnir þvingi þegnana inn í sama mót en sjái
til þess að þeir sem víki út af hinum þrönga vegi láti svipuna ganga á
sjálfum sér. Játningarnar eru þó ekki aðeins iðrunar- og yfirbótartextar,
á átjándu öld voru þær líka notaðar til að ögra ríkjandi venjum og siðum,
hylla einstaklinginn og talunarkalausa sjálfsverund hans.8
Nú voru játningabækur allra bóka vinsælastar á áttunda áratugnum á
dögum Rauðsokkahreyfingarinnar sálugu; þær voru notaðar í vitundar-
vakningarhópum til að ræða allt milli himins og jarðar frá kynsjúk-
dómum til blætisgildis vörunnar í kapítalísku samfélagi. Þessar bækur
voru alls ekki lesnar vegna einstaldinganna sem þær skrifuðu og þó höf-
90
TMM 2004 • 2