Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Qupperneq 113
Bókmenntir
stóð í svipuðum sporum og lauk lífinu í snjóflóði, séra Brands í samnefndu leik-
riti Ibsens, en honum varð á að gleyma gildi kærleikans líkt og kolleganum
Baldri og þurfti því á áminningu að halda í lokin um að Drottinn sé Deus carita-
tis. Munurinn er þó sá að okkar maður virðist ekki láta lífið í snjóflóðinu heldur
fara þá undankomuleið sem gefin er í skyn með tilvitnun í Hambrigði Óvíds
Rómarskálds um að allt breytist en ekkert farist: Omnia mutantur, nihil interit
og myndar þar heimspekilegan grundvöll sagna um hamskipti manna og dýra.
Vissulega minna afdrif séra Baldurs á það sem segir í fyrrnefndu verki Óvíds um
afdrif Lýkaons konungs, þess er breyttist í úlf sakir grimmdar sinnar, því að
mörkin milli tófu og manns hafa hér farið æ minnkandi eftir því sem á leið sög-
una, þar sem maðurinn verður æ dýrslegri að sama skapi og tófan fær mál sem
oft er talið höfuðeinkenni mennskra manna.
Svo vill til að þessi setning er einnig tilfærð í nýlegri skáldsögu eftir Christoph
Ransmayr sem ber á íslensku heitið Hinsti heimur (1989) og rekur spor
Hambrigðaskáldsins Óvíds um útlegðarstað hans í borginni Tómí við Svartahaf,
en þar er hún sett fram sem kenningar spekingsins Pýþagórasar um endurhold-
gun og sálnaflakk og hljómar svo: „Allt breytist, ekkert ferst, andinn reikar
stöðugt hingað og þangað, tekur sér bólfestu í alls konar limum, bregður sér úr
dýri í mann og þaðan aftur í dýrslíki og tortímist aldrei....“ Hér eru á ferðinni
hliðstæður, því að umhverfi séra Baldurs Skuggasonar er, þegar allt kemur til
alls, „hinsti heimur“ eða eins og segir í sögu Sjóns „á mörkum „hinns (sic) byggi-
lega heims“ alveg eins og Svartahafsströnd um Kristsburð, og því tilvalinn vett-
vangur fyrir viðureign eða samruna manns og náttúru, en munurinn sá að við
Svartahafið er það villtur trjágróður sem tekur völdin, en hér er það hvítur
snjórinn, ímynd dauðans hjá sumum íslenskum skáldum, sem umlykur allt.
Bókin Skugga-Baldur opnar víddir sem áhugavert er að skoða, og líkt og í fyrri
verkum sýnir höfundurinn Sjón það hugarflug, hugkvæmni og dirfsku sem ein-
kenna hann umfram flesta aðra og hann hefur kannski í fyrri bókum á stundum
gefið of lausan tauminn. Hér eru vinnubrögðin agaðri og markvissari en áður
með þeim árangri að flest það sem kann að prýða eina sögu nær að njóta sín:
bygging hennar hnitmiðuð og hlaðin spennu, orðfærið tært og vandað, frásagn-
arstíllinn ljóðrænn og fullur af ísmeygilegri kímni og lýsing persóna og atvika
ljóslifandi og jafnt gædd áþreifanleika sem almennri skírskotun. Þetta er því bók
sem hefur klassísk einkenni í fleiri en einum skilningi og til þess fallin að veita
varanlega ánægju hvernig sem á hana er litið, og það gildir ekki síður um kápu-
teikninguna utan á eftir Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal sem bæði gleður
sem slík og hæfir bókinni vel.
TMM 2004 • 2
111