Skessuhorn - 18.12.2019, Blaðsíða 74
MIÐVIKUDAGUR 18. DESEMBER 201974
Íris Edda Steinþórsdóttir er 19
ára Skagastelpa, fædd og uppal-
in á Akranesi. Hún lauk stúdents-
prófi frá Fjölbrautaskóla Vestur-
lands síðastliðið vor og byrjaði í
hjúkrunarfræði við Háskóla Ís-
lands í haust. Fyrsta önnin í skólan-
um fór þó ekki eins og til stóð því
þriðjudaginn 10. september ætlaði
hún ásamt kærastanum sínum að
djúpsteikja kjúkling. Þau settu olíu
í pott og kveiktu undir. „Við viss-
um ekki að það gæti verið hættu-
legt að djúpsteikja og höfðum ekki
hugmynd um hvernig ætti að gera
það. Við kveikjum því bara undir
og bíðum eftir að suðan komi upp,
sem gerist náttúrulega ekki,“ seg-
ir Íris Edda í samtali við Skessu-
horn. Eftir að hafa beðið í nokkurn
tíma opnuðu þau pottinn og þá gýs
upp eldur. „Það fyrsta sem mér datt
í hug var að losa okkur við eldinn
með að taka upp pottinn og hlaupa
með hann út. Veit nú að það má alls
ekki gera. Á leiðinni skvettist á mig
bæði eldur og olía,“ segir Íris Edda
sem hlaut þriðja stigs bruna á hægri
hönd, hægra læri, niður eftir sköfl-
ungnum og niður á rist og á ristinni
á vinstri fæti og annars stigs bruna
á vinstri hönd. „Vinstri höndin log-
aði en það var samt ekki eins slæmt
og hægra megin þar sem olían fór
á mig,“ segir Íris Edda. Þess ber að
geta að ef kviknar í olíu í potti er
best að nota eldvarnarteppi til að
kæfa eldinn.
Átta aðgerðir
Við tók langt bataferli sem enn er
ekki lokið. Íris Edda lá á Landspít-
alanum í Fossvogi í þrjár vikur eft-
ir slysið, þar af fyrst á bráðamót-
tökunni þar til hún var búin að fara
í aðgerð því ekkert laust pláss var á
brunadeildinni þegar hún var lögð
inn. „Svo ég var látin bíða annars
staðar þar til morguninn eftir þeg-
ar ég komst á deild A4,“ segir Íris
Edda. Hún fór samtals í átta aðgerð-
ir þar sem skinn var tekið af vinstra
læri og sett yfir sárin. „Þetta er eins
og skinnið sé skorið með ostaskera,
svona skafið af. Svo er það klippt
niður og sett á svæðin sem brunnu
mest, til að hjálpa líkamanum að
loka þeim. Sárin gróa þá hraðar
undir skinninu sem er sett yfir, það
hjálpar gróandanum og örin verða
skárri,“ útskýrir Íris Edda og bætir
því við að að skinnið hafi allsstaðar
verið heftað við hana, nema á hægri
hönd þar sem það var saumað. Var
hún með um 60-70 spor í höndinni
og segir hún það hafa verið mjög
sársaukafullt. „Ég var vakandi þeg-
ar saumarnir voru teknir úr og það
var mjög vont,“ segir hún. Lengsta
aðgerðin sem Íris Edda fór í tók sex
klukkustundir og sú stysta tók um
eina klukkustund. Hún var svæfð
í flestum aðgerðunum en stund-
um var hún aðeins slævð og tvisvar
var hún vakandi en verkjastillt. „Ég
fann samt fyrir öllu, sem mér fannst
ógeðslegt,“ segir Íris Edda.
Áhuginn á hjúkrun
hjálpaði henni
Eins of fyrr segir var Íris Edda ný-
lega byrjuð í Háskóla Íslands í
hjúkrunarfræðinámi þegar slys-
ið varð og segir hún áhuga sinn á
hjúkrun hafa hjálpað henni í gegn-
um allt ferlið. „Það var gott að hafa
áhuga á því sem var verið að gera.
Hjúkrunarfræðingarnir og lækn-
arnir voru frekar hissa á mér því
ég vildi sjá allt sem var verið að
gera við mig. Mér þótti það ekkert
ógeðslegt heldur bara frekar spenn-
andi,“ segir Íris Edda og hlær. En á
meðan hún var að ná sér eftir slysið
gat hún ekkert sinnt náminu. „Ég
missti eiginlega af þessari fyrstu
önn,“ segir hún og bætir því við að
hún hafi þó tekið ákvörðun um fara
í lokaprófin. „Ég hugsaði að ég gæti
engu tapað á að taka prófin og að
reyna mitt besta. Ég sé svo bara til
hvað ég geri á næstu önn þegar ég
hef fengið út úr prófunum,“ segir
hún.
Góður gróandi
Aðspurð segist hún öll vera að
koma til í dag þó vissulega sé bata-
ferlið ekki nærri búið. Hún segist
gera ráð fyrir að það taki hana um
eitt ár að ná fullum bata og er hún
bjartsýn á að fullur bati náist. „Ég
ætti að verða aftur jafn góð og ég
var. Ég er að gróa mun betur en
allir þorðu að vona og allt ferlið
hefur gengið mjög vel. „Ég virðist
vera mjög heppin hvað þetta varð-
ar og er með góðan gróanda al-
mennt,“ segir Íris Edda. Aðspurð
segist hún hafa átt erfiðast með
að vera rúmföst. „Ég er sem bet-
ur fer orðin alveg sjálfbjarga núna
en fyrst á eftir lá ég bara í rúm-
inu og gat ekki gert neitt sjálf.
Ég þurfti að fá aðstoð með alveg
allt. Það þótti mér erfiðast við
þetta allt saman. Það var eins og
allt væri hrifsað frá mér og ég lá
bara í rúminu með meðvitund en
gat ekkert gert og ekkert hreyft
mig,“ segir hún og bætir því við
að hreyfigetan sé að mestu komin
að nýju. „Ég er góð eiginlega alls-
staðar nema í hægri höndinni sem
er ennþá frekar stíf, stirð og aum,
enda var langversti bruninn þar,“
segir Íris Edda.
Þrýstihanski í eitt ár
Íris Edda þarf að klæðast sérstök-
um þrýstihanska á hægri hönd í
allavega 23 klukkustundir á sól-
arhring næstu mánuði. Hanskinn
hjálpar höndinni að gróa, kem-
ur í veg fyrir bjúg og bólgur og
hjálpar til við að gera örin sléttari.
Hún má ekkert taka hanskann af
sér nema til að þrífa hann og þeg-
ar hún fer í bað. Aðspurð segist
hún gera ráð fyrir að þurfa að nota
hanskann í heilt ár. „Höndin verð-
ur mikið betri ef ég er með hansk-
ann á mér á meðan allt er að gróa.
Það var vont að fara í hann fyrst
en núna þykir mér bara betra að
vera í hanskanum. Þegar ég fer úr
honum núna finn ég mikinn dofa
í höndinni, sem er óþægilegt, svo
mér líður bara best í honum. Hann
venst alveg,“ segir Íris Edda.
Sjúkraþjálfun
næstu mánuði
Spurð um hvað taki við núna í
bataferlinu segist Íris Edda vera
búin með aðgerðir og sjúkrahúss-
dvöl og nú sé hún bara í sjúkra-
þjálfun til að ná aftur fullri hreyfi-
getu í hægri höndinni. „Þegar ég lá
inni var sjúkraþjálfarinn að koma
til mín einu sinni til þrisvar á dag
til að hjálpa mér að hreyfa hend-
ur og fætur,“ segir hún og bætir
því við að eftir að hún útskrifað-
ist af Landspítalanum mæti hún til
sjúkraþjálfara einu sinni í viku og
mun halda því áfram næstu mán-
uði. Spurð hvort skemmdir hafi
orðið á húsinu segir hún það hafa
sloppið. „Það kom bara sót í loftið
og á parketið hjá svalarhurðinni.
Þar sem ég henti pottinum út fór
líka illa,“ segir Íris Edda og bætir
við að hægt hafi verið að skipta um
allt sem skemmdist.
Skildi líka eftir
sár á sálinni
Svona slys skilur ekki aðeins eftir ör
á líkamanum heldur verður sálarlíf-
ið líka fyrir áhrifum. „Andleg líðan
varð eiginlega bara mjög slæm eftir
þetta og ég var frekar þung alla dag-
ana á spítalanum, og eftir að ég kom
heim,“ segir Íris Edda og bætir því
við að hún hafi ekki beint tekið eftir
því sjálf hvernig andlega líðanin var
orðin, heldur var það fólkið í kring-
um hana sem sá það. „Þau sáu það
bara að líðan mín, og bara hvern-
ig ég var, var alls ekki eins og ég er
vön. Andleg líðan er eitthvað sem ég
mun sennilega þurfa að vinna mest
úr núna og á næstunni,“ segir hún.
„Það hefur verið mun erfiðara en ég
bjóst við að það myndi vera að líta
á það jákvæða og vera þakklát. En
ég ætla að tækla þetta allt saman, þó
ég viti ekki hversu langan tíma það
mun taka. Ég ætla ekki að gefast upp
og það er númer eitt, tvö og þrjú,“
segir hún og heldur áfram: „Að læra
að elska líkamann sinn er eitt, en að
þurfa að líta í spegil og sjá sig svona
á hverjum einasta degi og reyna að
sætta sig við það er annað og eitt-
hvað sem ég óska engum. Þetta er
fáránlega erfitt og ég veit ekki ennþá
hvernig ég ætla að fara að því að
reyna að sætta mig við þessi ör, en
ég vona samt að það kom einn dag-
inn,“ segir Íris Edda að endingu.
arg/ Ljósm. úr einkasafni.
Íris Edda þarf að vera í þrýstihanska á
hægri hönd í um eitt ár.
Lá á spítala í þrjár vikur eftir að hafa
ætlað að djúpsteikja kjúkling
Rætt við Írisi Eddu sem brenndist illa á olíu
Íris Edda er ung Skagastelpa sem lenti í slysi í september þegar hún brenndi sig á
sjóðandi olíu.
Hægri höndin á Írisi Eddu í dag og svo daginn sem hún fékk að sjá hana í fyrsta
skipti eftir slysið.
Íris Edda lá á spítala í þrjár vikur.Hér má sjá hvar skinnið var tekið af
vinstra lærinu hennar til að setja yfir
verstu brunasárin.
Ristin á Írisi Eddu eins og hún er í dag.