Þjóðmál - 01.09.2015, Blaðsíða 84
82 ÞJÓÐMÁL hausthefti 2015
Allmikil opinber umræða hefur verið hér-
lendis nú á árinu 2015 um orkumál. Hefur hún
aðallega snúizt um mismunandi orkulindir,
þ.á.m. af nýjum toga, orkuverð, orkunýtingu og
orkuskort, en einnig um flutningskerfi rafork-
unnar og þær ógöngur, sem athafnalífið og allir
raforkunotendur standa frammi fyrir af völdum
úrelts flutningskerfis. Fram hefur komið, að á
næsta áratugi er von á nýrri gerð kjarnorkuvera,
sem klýfur frumefnið Þóríum, og verður geisla-
virkni eldsneytisleifanna hættulaus á innan við
100 árum, sem er innan við 1/10 af helmingunar-
tíma eldsneytisleifa hefðbundinna úraníum
kjarnakljúfa. Hægt verður t.d. að reisa Þóríum-
kjarnorkuver hjá stórnotendum, og losna þeir
þá við truflanir á stofnkerfinu, svo að ekki sé nú
minnzt á afl- og orkuskort.
Skiptar skoðanir eru um arðsemi sæstrengs
á milli Íslands og Skotlands, enda ríkir enn, eftir
5 ára meðgöngutíma Landsvirkjunar, óvissa
um tæknilega útfærslu strengmannvirkjanna,
virkjanaþörf og viðskiptaskilmála. Telja ýmsir
hana ganga þar með steinbarn í maganum,
ekki sízt í ljósi frétta af nýjum orkulindum,
sem ekki menga andrúmsloftið umtalsvert, og
lækk-andi orkuverðs á Englandi, einnig á endur-
nýjanlegri orku. Menn virðast sammála um, að
skilyrði fyrir lágmarksarðsemi verkefnisins sé, að
brezka ríkið tryggi lágmarksverð fyrir rafmagn
um strenginn, sem verði hátt ofan við markaðs-
verð á Bretlandi um þessar mundir; sennilega
þarf um 2,3-falt markaðsverð í Bretlandi til að
tryggja lágmarks arðsemi bæði raforkuvera,
stofnlína og sæstrengs. Er þetta mun hærra
verð en brezk yfirvöld greiða nú fyrir endur-
nýjanlega orku á Bretlandi, svo að viðskipta-
hugmyndin er í rauninni andvana fædd. Þegar
ný og umhverfisvæn orkutækni mun ryðja sér
til rúms, og jafnvel fyrr, er líklegt, að stórfelldar
niðurgreiðslur fyrir endurnýjanlega orku á
Englandi og annars staðar muni heyra sögunni
til, og þar með mun áhugamönnum á Íslandi
um sæstreng til útlanda væntanlega falla
allur ketill í eld. Færeyingar, sem nú brenna
jarðefnaeldsneyti til rafmagnsframleiðslu,
munu væntanlega sjá hag sínum bezt borgið
með Þóríum-kjarnorkuveri við sitt hæfi, svo að
sæstreng á milli Íslands og Færeyja má einnig
telja úr sögunni.
Nýting orkulindanna til rafmagnsvinnslu fyrir
orkukræfan iðnað veldur enn deilum hérlendis,
og má um þær segja, að lengi lifir í gömlum
glæðum frá árinu 1966, er lög um Íslenzka
Álfélagið hf. voru samþykkt eftir harðar deilur.
Enn eru hafðar uppi bölbænir í garð stóriðj-
unnar, þó að hún sé fyrir löngu orðin ein þriggja
grunnstoða gjaldeyrisöflunarinnar, og henni
megi þakka eitt lægsta raforkuverð til almenn-
ings, sem þekkist. Er undirfurðuleg sú útúr-
borulega árátta ýmissa, sem þó vilja láta taka
sig alvarlega á opinberum vettvangi, að stilla
heilu atvinnuvegunum upp sem andstæðum
hagsmunum almennings, og andstæðum hags-
munum annarra atvinnuvega, þó að rökin séu
fátækleg og oftast úrelt. Tilgangurinn virðist
helga meðalið hjá þeim, sem vita varla lengur,
hvers vegna þeir eru á móti stóriðjunni.
Ýmis teikn eru á lofti um, að stjórnkerfi
orkumála í landinu sé ekki jafnskilvirkt og
nauðsyn krefur til skynsamlegrar stefnumörk-
unar í því mikilvæga hagsmunamáli almenn-
ings að forðast afl- og orkuskort, og verður sá
hluti þessa stjórnkerfis, sem undirbýr flokkun
virkjunarkosta, meginumfjöllunarefni þessarar
greinar, þó að af mörgu sé að taka, þegar
orkumálin eru annars vegar.
Orkustofnun og Rammaáætlun
Eftirfarandi er lýsing á hlutverki (OS)1):
• Orkustofnun fer með stjórnsýslu í orkumálum
og aflar þekkingar á nýtingu orkulinda og
annarra jarðrænna auðlinda.
• Stendur fyrir rannsóknum á nýtingu orkulinda
og annarra jarðrænna auðlinda og öðrum
viðfangsefnum á sviði orkumála.
• Vinnur að áætlanagerð til langs tíma um
orkubúskap þjóðarinnar.
• Er ríkisstjórn til ráðuneytis um orkumál og
auðlindanýtingu.
• Fer með leyfisveitingar vegna rannsókna og
nýtingar á auðlindum og orkuvinnslu.
Bjarni Jónsson
Orkunýting og rammaáætlun