Þjóðmál - 01.09.2015, Blaðsíða 93
ÞJÓÐMÁL hausthefti 2015 91
enginn vissi hvað formaðurinn vildi. Þá varð
ljóst að þetta ástand gat ekki gengið til lengdar.
Stjórnsýslan beið þess með óþreyju að leið-
toginn gæfi upp öndina.
Maó var ekki eins grimmur við gamla félaga
sína og Stalín var. Hann neyddi þá reyndar til
niðurlægjandi sjálfsgagnrýni en gekk sjaldnar
en Stalín svo langt að láta taka þá af lífi. Hann
hélt viljastyrknum fram á grafarbakkann og
færninni í að viðhalda valdajafnvægi innan
flokksins, þannig að engin ein fylking næði
yfirhöndinni.
Maó sagðist vilja beita klókindum frekar en
valdi til að ná sínu fram. Eitt sinn spurði hann
tvo nánustu samstarfsmenn sína hvernig best
væri að fá kött til að éta pipar og átti þá við
þjóðina. „Það er auðvelt,“ svaraði annar þeirra.
„Maður fær einhvern til að halda kettinum,
treður piparkorninu í skoltinn á honum og
potar því niður með matprjóni.“ Formanninum
leist illa á svarið og sagði að betra væri að
fá köttinn til að éta sjálfviljugur en að beita
valdi. „Þá myndi ég svelta köttinn,“ sagði hinn,
Zhou Enlai forsætisráðherra. „Síðan myndi ég
vefja kjöti utan um piparinn. Ef kötturinn er
nógu svangur gleypir hann allt í einum bita.“
Maó hristi höfuðið, sagði að ekki mætti beita
blekkingum. Hann hafði þrauthugsað þetta
undarlega úrlausnarefni og kom með svarið:
„Maður nuddar piparnum vel og vandlega á
bak kattarins,“ sagði hann. „Þegar honum svíður
sleikir hann piparinn af – og er alsæll með að
honum skuli vera leyft að gera það.“
Þessi samlíking átti vel við í nokkrum tilvik-
um þegar Maó fékk fólk til að kyngja stefnu
hans – en alls ekki öllum. Hann beitti vissulega
klókindum en vílaði ekki fyrir sér að beita valdi
og blekkingum þegar hann kom því ekki við að
nudda kryddi á kettina.
Formaðurinn hafði alltaf mikla þörf fyrir að
njóta aðdáunar. Hann sagði sjálfur að þessi
þörf hefði næstum kostað hann lífið þegar
hann synti í straumþungu fljóti, Yangtze, í júlí
1966, á 73. aldursári. Undirmenn hans höfðu
reynt að fá hann af því að synda í fljótinu vegna
straumþungans en Maó skeytti ekki um mót-
bárur þeirra. Yfirmaður hersins sýndi hugrekki
sitt með því að stinga sér fyrstur í fljótið og litlu
munaði að hann drukknaði þegar hann synti á
móti straumnum.
Maó hafði þó vit á því að reyna þetta ekki,
heldur lét sig fljóta niður Yangtze í tvær klukku-
stundir. Málgögn stjórnarinnar lýstu reki
formannsins niður fljótið sem miklu þrekvirki
og ráðherrar hældu honum á hvert reipi. „Fólk
á ekki að monta sig,“ sagði Maó síðar. „Ég synti
allt of lengi! Mér fannst ég vera að örmagnast af
þreytu en vildi monta mig og hélt áfram. Hefði
Ye Zilong [lífvörður hans] ekki fengið mig til að
fara aftur um borð í skipið hefði ég dáið.“
„Hann þráði ástúð og hól,“ sagði Li Zhisui,
sem var læknir Maós í 22 ár og skrifaði síðar
bók um hann. „Hungur hans í hrós jókst eftir því
sem hann sætti meiri gagnrýni innan flokksins.“
Að sögn læknisins svalaði Maó þessari þrá eftir
aðdáun með því að sænga hjá stúlkum sem
sáu ekki sólina fyrir honum, auk þess sem hann
sóttist eftir hóli samstarfsmanna sinna. Þegar
hershöfðinginn Lin Biao hafði haldið langa lof-
ræðu um Maó á fundi í Alþýðuhöllinni í Peking
bað formaðurinn um meira af mærðinni. „Orð
Lin Biao eru alltaf svo skýr og afdráttarlaus,“
sagði hann. „Þau eru hreinasta afbragð. Hvers
vegna geta hinir flokksleiðtogarnir ekki verið
svona glöggir?“
Maó var tignaður sem einn af mikilhæfustu
byltingarleiðtogum og skæruliðaforingjum
veraldarsögunnar. Hann var jafnframt heim-
spekingur og skáld sem blés fylgismönnum
sínum eldmóði í brjóst. Stundum var þessi
eldmóður til góðs en stundum jaðraði hann
við brjálæði, eins og í stóra stökkinu fram á við
þegar öll heilbrigð skynsemi var horfin veg
allrar veraldar. Hann varð æðsti leiðtogi stærsta
ríkisbákns í heiminum en hafði ekki hundsvit á
efnahagsmálum. Hann lagði grunn að einræðis-
ríki sem er nú að verða að mesta efnahagsveldi
heimsins eftir að hafa losað sig við bábiljur hans.
Í augum stuðningsmanna Maós var hann ekki
aðeins Stalín kínverska alþýðulýðveldisins, heldur
einnig Marx og Lenín. Hann lagði asískan grunn
að hugmyndafræði kínverska kommúnista-
flokksins, var byltingarleiðtogi eins og Lenín og
sá einnig um að koma hugsjónum byltingar-
mannanna í framkvæmd í áratugi eins og Stalín.
Maó fór jafnvel að líta á sig sem guð og
leiðtogadýrkunin tók á sig undarlegar myndir.
Allir Kínverjar voru skyldaðir til að lesa Rauða
kverið, kafla úr ritum og ræðum Maós, og bókin
var gefin út í fleiri eintökum en nokkrar aðrar
bækur í heiminum að Biblíunni og Kóraninum
undanskildum. Kínverskir fjölmiðlar birtu
reglulega fréttir um að fólk hefði risið upp frá
dauðum eða blindir fengið sýn þegar læknar