Þjóðmál - 01.03.2020, Page 86

Þjóðmál - 01.03.2020, Page 86
84 ÞJÓÐMÁL Vor 2020 Fátt tákngerir þann nýja veruleika sem Evrópa var að stíga inn í betur en ímynd óbreytta hermannsins, sem rís upp úr skotgröfum fyrri heimsstyrjaldar í áhlaupi að víggirtri varnarstöðu óvinarins, sem fyrir fram var dæmt til að mistakast. Þá hernaðartækni kallaði Foch marskálkur að „narta“ í vígstöðu andstæðingsins. Charles de Gaulle, þá liðsforingi í franska fótgönguliðinu, minntist þess enda að stríðið hefði ekki verið neitt í líkindum við það sem hann hafði ímyndað sér: hugrekki og mannkostir skiptu engu í þessum nýja heimi vélbyssunnar og sinneps- gassins. Tímarnir höfðu breyst frá því að þeir sem hneigðust til rómantisma höfðu talið ákjósanlegt að berjast og deyja fyrir göfugan málstað, líkt og Byron lávarður, sem féll í frelsisstríði Grikkja gegn Ottómönum. Vígvöllurinn við ána Somme, þar sem ein milljón manna lést eða særðist, virtist standa sem eins konar táknmynd um endalok evrópskrar siðmenningar. Erfitt reyndist að endurreisa frjálslynda samfélagið eftir endalok fyrri heimsstyrjaldar, sem varð þess í stað fljótlega kreppunni miklu að bráð. Ofan á átök þjóðríkjanna bættust nú hugmyndafræðileg átök frjálslyndrar samfélagsgerðar vestrænu lýðræðisríkjanna og fasismans og kommúnismans. Valdataka þjóðernissósíalista í Þýskalandi árið 1932 virtist benda til þess að framtíðin tilheyrði hinum síðarnefndu. Í Sovétríkjunum treysti Stalín valdastöðu sína eftir dauða Leníns með hreinsunum sem kostuðu milljónir manna lífið. Bretland vildi helst ekki þurfa að blandast inn í hríðversnandi ástand á meginlandi Evrópu. Í Frakklandi ríkti hálfgert umsátursástand í skugga missættis kaþólikka og lýðveldis- sinna, sem torveldaði viðbrögð við brotum Þjóðverja á skilmálum friðarsamkomulagsins. Á sama tíma tryggðu frekari framfarir í iðnaði, tækni og vísindum að seinni heimsstyrjöldin yrði enn blóðugri en sú fyrri. Byltingin gegn þjóðríkinu og vestrænni menningu Það samfélagsmódel sem varð ofan á í Vestur-Evrópu eftir stríð byggðist á þjóðríkinu, blönduðu hagkerfi og uppbyggingu öflugs velferðarkerfis. Vaxandi velmegun einkenndi fyrstu tvo áratugina eftir stríð og í flestum ríkjum vestan járntjaldsins voru eftirstríðsárin tími mikils hagvaxtar og lítillar verðbólgu. Félagslegt traust innan ramma þjóðríkisins auðveldaði sátt um kaup og kjör og tryggði næga fjárfestingu til að viðhalda batnandi lífskjörum. Þegar komið var fram á miðjan sjöunda áratuginn fór þó að bera á ókyrrð á vinnumarkaði og undir yfirborðinu mátti greina hræringar, sem áttu eftir að sameinast í einni samfelldri uppreisn gegn ríkjandi þjóðskipulagi. Hér skal aðeins nefna þrjár þeirra: í fyrsta lagi var stúdentabyltingin; í öðru lagi réttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum; og í þriðja lagi vaxandi áhrif póstmódernískrar heimspeki og afbyggingar- skilaboða hennar. Að baki þessum fyrirbærum mátti í mismunandi ríkum mæli greina skugga Marx, endalok nýlendustefnunnar og hugmyndafræðileg átök kalda stríðsins. Stúdentabyltingin, sem braust upp á yfirborðið árið 1968 og breiddist hratt út um Vesturlönd, einkenndist umfram allt af andspyrnu gegn ríkjandi þjóðskipulagi, þó að þátttakendurnir virtust ekki alltaf alveg vissir hvers vegna eða í þágu hvers. Fyrir suma snerist byltingin aðallega um að vera á móti menningu og gildum eldri kynslóðarinnar. Aðalskotspónninn var þó markaðshagkerfið, borgarastéttin, neyslusamfélagið og hvers kyns yfirvald. Margir voru þó líka andvígir Sovétríkjunum og fylgdu Maó formanni og menningar- byltingu hans eða Fídel Kastró að málum. Í þeirri afstöðu birtist einn af meginstraumum hugmyndafræði stúdentabyltingarinnar, sem var eins konar þriðjaheimshyggja – eða Bandung-andi – samstaða með sjálfstæðis- baráttu undirokaðra þjóða gegn heimsvalda- og nýlendustefnu samfélags vestrænu borgarastéttarinnar eins og hún var talin birtast í stríðinu í Víetnam.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.