Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2004, Page 40
Múlaþing
Söngtaflan í Eiðakirkju frá 1807.
Ljósmynd: Snorri Sigurðsson.
í heimakirkju hans að Hólmum var
söngtafla frá 1808, nú í Þjóðminjasafni.20
Því miður virðist söngtaflan sem séra
Jón getur í visitasíu sinni á Hálsi glötuð
enda fauk sú kirkja árið 1892 og var ekki
endurreist en ný kirkja byggð á Djúpavogi
eftir að ákveðið var árið 1893, að flytja
kirkjustaðinn þangað.
Austfirðingar virðast annars gæta vel
söngtaflna sinna og halda þeim til haga þótt
nýjar kirkjur rísi. Þess vegna skreyta hinar
fyrstu söngtöflur enn margar austfirskar
kirkjur og minna á hið breytta helgihald
sem þær innleiddu. Stíll þeirra er mjög
keimlíkur, sér í lagi þeirra elstu, svo geta
má sér til að einhver hagur Austfirðingur
hafi smíðað þær og haft til hliðsjónar
teikninguna í Aldamótabókinni. Elsta taflan
sem enn er varðveitt, og mér er kunnugt um,
er frá Hallormsstað frá árinu 1802. Hún er
nú í Þingmúlakirkju, hefur sennilega verið
flutt þangað um það leyti sem
Hallormsstaðarkirkja var tekin niður og
sóknin lögð til Þingmúla samkvæmt
landshöfðingjabréfi 28. febrúar 1895.21 í
Stafafellskirkju í Lóni í Austur-Skafta-
fellssýslu - en Lónsbúar höfðu á þessum
árum mikil samskipti við Djúpavog - er
söngtafla frá 1804 býsna lík söngtöflunni frá
Hallormsstað. Þessar tvær skera sig úr að
því leyti að þær gera ráð fyrir öllum þáttum
kirkjuþjónustunnar eins og fyrir er lagt í
formála Aldamótabókarinnar, en þær
söngtöflur sem síðar eru smíðaðar gera
aðeins ráð fyrir sex þáttum messunnar. í því
sambandi skal bent á söngtöflurnar í
Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu frá 1805, í
Eiðakirkju frá 1807, í Hofskirkju í Álftafirði
frá 1808 og Hólmakirkju í Reyðarfirði frá
1808. Eftirtektarvert er að í þremur kirkjum
að minnsta kosti hafa varðveist tréstokkar
til að geyma í sálmanúmerin. Þeir eru í
Stafafellskirkju frá 1804, í Kirkjubæjar-
kirkju í Hróarstungu frá 1805 og í Valþjófs-
staðakirkju frá 1805, sem sannar að þar
hefur einnig snemma verið komin söngtafla
á vegg þótt glötuð sé að því að best er vitað.
Söngtafla sú sem nú prýðir Hjaltastaða-
kirkju er líkrar gerðar og á Eiðum og víðar
þótt yngri sé, ber ártalið 1847.
Eins og fyrr getur hefi ég í einni
austfirskri kirkju séð söngtöflu af steini.
Slíkt taldi biskup Balle viðunandi lausn í
Danmörku, þótt Geir biskup og Magnús
Stephensen legðust gegn því hérlendis.
Steintafla þessi hangir í Beruneskirkju yst
20 Þjms. nr. 7534a
21 Prestatal og prófasta á íslandi eftir Svein Níelsson, 2. útg.
R. 1950, bls. 11.
38