Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2004, Side 83
Um búskap og fleira í Bót í Hróarstungu
á tún. Náðum því upp í sæti linþurru að
vísu, um kvöldið. Bundum það svo inn
daginn eftir í snjórytju. Þeir sem ekki náðu
heyjum þessa daga, náðu þeim lítt eða ekki
fyrir snjó um haustið. Veturinn 1917-18 var
kaldur og oft hagskrafl allt fram undir jól,
þá mun hafa hlánað vel. En með
janúarbyrjun brá til norðanáttar og voru
glórulitlir norðanbylir með 20-30 stiga
frosti til þorrakomu. Eftir það var tíðin stillt
og hagar góðir til sumarmála. A síðasta
vetrardag var öllu fé sleppt af húsi. Þá hafði
heyeyðsla yfir veturinn verið sem svaraði
10 útheys hestar á hverjar 40 kindur.
Sumarið 1918 var stillt og þurrt lengst af.
Gróður seint á ferðinni. Þegar hann loks
kom var sjáanlegt að jörð var stórskemmd
frá vetrinum, bæði tún og úthagi. Af túninu
hjá okkur fengust um 80 hestar, en í
meðalári um 200. Mikið af þessum heyfeng
var óþurrkandi vegna arfa. Ekki var betri
útkoma á úthaga. Þar var í rauninni enginn
slægur blettur. Það reyndist fullerfitt að fá í
skotin í heystæðunni þó þau væru ekki stór
eftir veturinn. Það bætti nú ekki að síðustu
viku heyskapartímans var óþurrkur. Við
fluttum því það litla sem fékkst votaband
heim á tún. Að því loknu snjóaði svo mikið
að ekkert sá á beðjurnar. Við grófum
nokkuð af því upp úr snjónum og gáfum
ferðamannahestum sem alltaf gistu um það
leyti hjá okkur. Þegar snjóinn tók nokkru
síðar, hirtum við dreifarnar illa þurrar.
Veturinn 1918-19 var hagsæll fram á
einmánuð, þá stóð beitarfé 3 vikur í húsi
fyrir snjó og hagleysi, sá snjór lá það langt
fram á sumar að ám var ekki sleppt fyrir
sauðburð. Eftir það var sumarið 1919
fremur leiðinlegt. Skúrir oft meinlegir
vegna heyþurrks og snjóar miklir í
haustkauptíð. Veturinn 1919-20 var mikill
snjóavetur og gjafafrekur. Vorið kalt,
sumarið 1920 eftir það allgott. Veturinn
1920-21 mátti heita í meðallagi. Hagar
oftast sæmilegir. Sumarið var leiðinlegt
framanaf. Gróður kom seint og hryðjusamt.
Eftir það sæmilegt til enda. Veturinn 1921 -
22 var gjafafrekur á köflum, þó ekki mjög
erfiður.
Læt nú þessari ófullkomnu lýsingu á
árferði lokið með vetrinum 1921-22. Eftir
það manst þú ekki síður en ég hvað fram fór
í þeim efnum. Ég man reyndar dálítið um
árferði fram um 1930, en eftir það ekki
nema ár og ár á stangli, helst ill.
Þess má geta að þessi lýsing mín á
árferði hér að framan á að mestu við Bót og
umhverfið. Á þcim árum voru óljósar fréttir
úr öðrum landshlutum og jafnvel úr næsta
nágrenni héraðsins.
Lagarási 2, 24.01.1972
Með kærri kveðju.
Þinn frændi.
Gunnlaugur Eiríksson.
81