Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2004, Page 94
Múlaþing
fundið konuefni sitt, Sigurbjörgu, sem var
ein dætra þeirra Grímsstaðahjóna Jóns og
Guðrúnar. Var hún 11 árum yngri en Björn,
fædd 9. desember 1837. Verið getur og að
kynni þeirra Björns hafi orðið haustið 1860
þegar Björn rak sláturfé sitt í kaupstað á
Vopnafirði, því þá var hún með foreldrun
sínum á Hauksstöðum. Svo mikið er víst að
lýst var með þeim strax eftir komu Björns
norður, eða hinn 27. maí 1861, og þau síðan
gefin saman í hjónaband hinn 12. júlí um
sumarið. Á einmánuði árið 1862 eru alls 16
manns í heimili á Grímsstöðum með vinnu-
og húsmennskufólki, þar á meðal voru
tengdaforeldrar bónda, og einnig þau
Bergur og Kristín með fósturdóttur sína
Kristínu frá Fljótsbakka .
En ekki auðnaðist þeim Birni og
Sigurbjörgu löng samvera, því hún lést hinn
21. september á komandi hausti, líklega af
barnsförum, sem og barnið líka. Eftir það
gekk Björn að eiga systur hennar
Aðalbjörgu, og fór fram lýsing með þeim
vorið eftir, hinn 30. apríl, og voru þau
samangefin í Möðrudalskirkju hinn 24.
september 1863, eða rétt rúmu ári eftir
dauða Sigurbjargar. Aðalbjörg var 9 árum
yngri en Björn, fædd hinn 16. desember
1835.
Björn bjó nú á Grímsstöðum með konu
sinni og skylduliði, og á næstu árum
fæddust börn þeirra, sem urðu sjö að tölu.
Vegur hans jókst nú smám saman og ekki
leið á löngu uns hann var orðinn hreppstjóri
þeirra Hólsíjöllunga.
Bergur andast - Erfðaskráin
Vegna fylgispektar Bergs Hallssonar við
Björn Gíslason hefi ég íjallað meira og
ítarlegar um hann heldur en ég upphaflega
ætlaði. Hvað sem menn annars telja um
sögusagnirnar gömlu að Björn væri sonur
Bergs, virðist sem þcir hafi komið sér mæta
vel saman, þ.e. átt skap saman, ella hefði
samfélag þeirra vart orðið svona
langvarandi eftir að það hófst í Veturhúsum
forðum daga. Þau Bergur og Kristín kona
hans voru löngum í vinnu- og húsmennsku
hjá Birni. Það skeði svo um mitt sumar
1866, hinn 29. júní (júlí) að Bergur
Hallsson lést á Grímsstöðum, 67 ára að
aldri.
Fram kemur í þjóðsögum Sigfúsar að
Bergur átti skatthol mikið sem hann geymdi
í peninga sína. Víst er að hann lét eftir sig
fjármuni, en hvort hafi verið um að ræða
digra sjóði skal ósagt látið, þar sem um það
skortir heimildir. í skrá yfir dána í
Skiptabók Þingeyjarsýslu er Bergs getið og
dánardags hans, og sagt hann eigi mynduga
erfingja, en síðan ekki sögunar meir í þeirri
bók, framhald hennar virðist ekki vera fýrir
hendi nú í Þjóðskjalasafni, hvað sem síðar
kann að verða. Vöntun er á nokkrum skipta-
og arfagjaldsskýrslum um þetta leyti, en
geta má þess að fyrirspurn barst frá
sýslumanni til hreppstjóra í Skinnastaða-
hreppi varðandi dánarbú Bergs Hallssonar
frá Grímsstöðum, hvort hann hafi átt meira,
eins og fyrr hafi eitthvað komið fram um
eignir hans.
Þrátt fyrir leit í bréfabókum sýslumanna,
bæði Þingeyjar- og Múlasýslna hefi ég ekki
fundið neitt sem upplýsir frekar hvað varð
af nefndum peningum Bergs, en víða vantar
bréf, jafnvel helst það sem ef til vill gæti
upplýst ýmislegt, en skal þó ekki útiloka að
nrér hafi yfirsést eitthvað. Að öllu þessu
athuguðu læðist að manni sá grunur að
þjóðsagan hafi vissulega við rök að
styðjast, nefnilega að Bergur hafi arfleitt
Björn Gíslason að megninu af peningum
sínum, og líklegt sé að Bergur hafi sjálfur
að minnsta kosti talið að hann væri sonur
sinn, hvað sem hann hugsaði með börnin
sem honum voru kennd. Vera má og að
92