Saga - 2015, Blaðsíða 144
Stóra samhengið
Mörg hver höfum við lesið gamlar barnabækur um andstæðuna
milli Reykjavíkurósómans og heilbrigðrar sveitamenningar. Allt
fram á níunda áratuginn voru slíkar bækur og sögur skyldulesefni
í grunnskólum og gjarnan settar fram án nokkurrar umræðu eða
gagnrýni á þann boðskap sem þær höfðu fram að færa. Þegar ég var
að alast upp í Háaleitishverfinu á 8. og 9. áratugnum þótti ekki
nægilega fínt að vera bara úr Reykjavík. Ég man eftir kennara sem
hló að mér þegar ég sagðist vera úr Reykjavík og sagði að það væri
ekki hægt, allir ættu uppruna sinn annars staðar, ég hlyti að vera úr
einhverri sveit. Þótt ég benti á að foreldrar mínir væru báðir fæddir
og uppaldir í borg þá var það ekki tekið gilt. Að lokum komst ég að
því að ég gæti sagst vera að austan — frá Seyðisfirði — jafnvel þótt
ég hefði aðeins einu sinni komið á Austfirði og amma mín hefði flust
þaðan rúmlega tvítug með sár á sálinni og ákveðið að snúa þangað
aldrei aftur. Hún talaði samt stundum um þokuna. Seinna komst ég
líka að því að afi minn ólst upp á Reyðarfirði en ekki minnist ég þess
að hann hafi heimsótt sveitina sína, enda fórum við fjölskyldan
sjaldan lengra en austur fyrir fjall eða út á keflavíkurflugvöll. en ég
er semsagt að austan.
Það er einmitt þessi togstreita og innri kvöl borgarbarnsins, sem
ekki á rætur í neinni sveit, sem eggert Þór varpar ljósi á og setur í
stærra samhengi í bókinni Sveitin í sálinni. Hann bendir á að
bernskuheimur flestra barnabókahöfunda, sem margir hverjir voru
einnig barnaskólakennarar, hafi verið í sveitinni. Í sögum þessara
höfunda „var sveitalífinu iðulega stillt upp sem andstæðu þess sem
tíðkaðist í bæ og borg. … engu var líkara en reynt væri að koma því
inn hjá börnum að óeðlilegt væri að búa í borg“ (bls. 35).
Í bók eggerts kemur fram að innan við tíundi hluti þjóðarinnar
bjó í Reykjavík við upphaf 20. aldar en um 80% í sveitum landsins.
Á níunda áratugnum hafði þetta hlutfall breyst umtalsvert því árið
1986 bjuggu innan við 10% landsmanna í sveit og 90% í þéttbýli (bls.
7). Reykjavík stækkaði ört, einkum á síðari hluta 20. aldar, og þetta
nýja borgarsamfélag var, eins og eggert bendir á, „í svo mörgu tilliti
andstæða sveitasamfélagsins sem margir drukku í sig með móður-
mjólkinni“ (bls. 7). „Margir lifðu þannig á mörkum tveggja heima“
segir eggert (bls. 8), og það er einmitt togstreitan milli þessara
tveggja heima sem er í forgrunni í bókinni.
sigrún alba sigurðardóttir142
Saga haust 2015 umbrot.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 26.11.2015 11:00 Page 142