Heilbrigt líf - 01.06.1952, Blaðsíða 7
Sveinn Björnsson var fyrsti maðurinn, sem valinn var til að vera
fulltrúi hins unga, sjálfstæða, íslenzka ríkis með öðrum þjóðum, gæta
hagsmuna þess og sæmdar. Hann var þarna brautryðjandi og lagði
grundvöllinn að utanríkisþjónustu Islands. Honum fórst þetta starf
svo vel úr hendi, að aldrei var skipt um sendiherra, þótt oft væri
skipt um stjórnir, og traustið, sem hann hafði áunnið sér, bæði meðal
fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi og þjóðarinnar sjálfrar, var svo óskor-
að, að strax og þjóðin eignaðist innlendan þjóðhöfðingja, var hann
til þess mikla vanda kjörinn og gegndi embætti þjóðhöfðingjans til
dauðadags. Einnig til þess vanda þótti Sveinn Björnsson einn vera
sjálfsagður. Slík var reynslan af hæfileikum hans, öryggi í starfi,
dómgreind, lipurð í samskiptum við menn, hóglæti samfara virðu-
leika í framkomu og vilja hans til að stuðla að heill alþjóðar. Varla
verður ritað svo um Svein Björnsson forseta, að ekki sé minnst á
Georgiu Björnsson forsetafrú, sem studdi mann sinn í starfi á alla
lund og gegndi stöðu húsfreyjunnar, bæði í sendiherrastöðunni og
forsetastöðunni, með slíkri rausn og skörungsskap, að ekki varð á
betra kosið.
III.
Þótt Sveinn Björnsson hefði aldrei orðið sendiherra eða forseti
íslands, mundi nafn hans samt geymast í sögunni. Hann kom svo
mörgu öðru góðu til leiðar og studdi mörg framfaramál, að það eitt
mundi nægja til að varðveita nafn hans í sögunni.
Þessu til sönnunar vil ég nefna stofnanir og fyrirtæki eins og
Eimskipafélag Islands, Brunabótafélag Islands, Sjóvátryggingafélag
íslands og Rauða kross íslands. Sveinn Björnsson beitti sér fyrir
stofnun allra þessara fyrirtækja ásamt öðrum góðum mönnum, og
gegndi formennsku í þeim öllum. Hann var brennheitur áhugamaður
um almannatryggingar, og ræður það að líkum, þegar litið er á lilut-
verk þeirra stofnana, sem að ofan getur. Hann óskaði þess, að þjóðin
stæði sem traustustum fótum og einstaklingar hennar líka, svo að
öryggi kæmi í stað öryggisleysis, ef út af bæri. En bakhjarlinn, ef
annað brygðist, var samhjálpin, bróðurþelið — hugsjón Rauða kross-
ins. Sveinn Björnsson var fyrsti formaður Rauða kross íslands, frá
stofnun hans 10. desember til 21. júní 1926, og var sæmdur heiðurs-
merki hans fyrstur manna 1949.
Heilbrigt líf
5