Úrval - 01.11.1975, Blaðsíða 3
Úrval
Nóvember
1975
Nú er kominn nóvember og fiskveiðilögsagan er komin út í 200
mílur. Þegar þessi orð eru rituð, er ekki vitað, hver verða áþreifanleg
viðbrögð breta og þjóðverja við þessari útfærslu, en við þekkjum hug
þeirra og háttalag, og við þekkjum söguna, sem þeir eiga á bak við sig.
Ekki verður annað sagt, en að báðar þessar þjóðir hafi otað sínum
tota á öllum tímum og reynt að hafa eins mikið gagn af öðrum þjóð-
um og þeir hafa getað, stundum svo að það hefur vakið andúð annarra
þjóða. En mikill munur er á aðferðum: Bretar hafa oftast farið fram
með prúðmannlegri frekju, meðan þjóðverjar elska hnefaréttinn og
ruddaskapinn og ganga með ofurmennishugmyndir um sjálfa sig. Enn-
þá gremjulegri verður þessi afstaða þeirra og framkoma okkur íslend-
ingum vegna þess, að þegar allt leikur í lyndi eru þetta vinaþjóðir
okkar góðar og kunningjar.
Þessar þjóðir gætu litið sér nær. Þær hafa ekki alltaf talið sig hafa
nægilegt ,,lebensraum“ og hafa gripið til snöggtum róttækari aðferða
til þess að verða sér úti um það, heldur en við íslendingar gerum nú,
er við helgum okkur hafsvæðið, sem engum tilheyrir nema okkur,
en þessar fornu frekjuþjóðir skáka í skjóli fornrar hefðar, sem þeir
ættu þá að eiga um við dani, fremur en okkur, því í skjóli danska
kúgunarveldisins á íslandi sigldu bresk og þýsk fiskiskip hér upp í
landsteinana til að stela fiskinum okkar.
Ritstjóri.
Forsíðan: Nú hallar ári og sólin er löngum stundum fjarverandi.
Þeim mun betur kunnum við að meta hana þegar til hennar glýjar.
Að vísu mun kápumyndin okkar að þessu sinni tekin á öðrum árs-
tíma, en minnir okkur þó á, að enn á sólin eftir að lækka á lofti, áður
en hún fer aftur að hækka sinn gang. Ljósm. Jim H. Pope.