Goðasteinn - 01.09.1965, Blaðsíða 16
á Krossi segir hann, að verið hafi Eyjólfur, faðir Katrínar, móður
Ólafs í Marteinstungu. Hér skjátlast síra Jóni. Eyjólfur Magnús-
son, sem síðar segir frá, hefur verið sonur Magnúsar, sonar Magnús-
ar á Krossi, enda gæti Eyjólfur sá, sem oft kemur við skjöl, ekki
verið fæddur svo snemma, að hann hafi verið sonur Magnúsar á
Krossi. Eyjólfur hefur sjálfsagt borið nafn Eyjólfs lögmanns, sjúp-
föður Magnúsar Magnússonar, sem gengið hefur honum í föður stað.
JÓN MAGNÚSSON
Síra Jón í Hrepphólum Egilsson segir, að Jón bóndi á Núpi í
Eystrahreppi á fyrri hluta 16. aldar, Magnússon, hafi verið sóttur
til allra mála og haldinn hinn vísasti. *) Hann mun líklega vera
sá, sem getur í skrá yfir eignir Steinsholtskirkju 1505 og segir þar:
„Item lúkti síra Einar Ingimundarson, ráðsmaður í Skálholti, svo
mikla peninga kirkjunni í Steinsholti en Jón bóndi tók við Magnús-
son......“ Jón gæti þá þegar hafa verið orðinn lögréttumaður,
með því að á árunum næstu á undan getur manns í sunnannefnd
með því nafni. Mætti ætla, að Jón væri fæddur nálægt 1460. I
kaupbréfi gerðu á Ólafsvöllum á Skeiðum 25. júlí 1519 er Jón
,,bóndi“ Magnússon meðal gerningsvotta, og er líklegast að hann
sé Jón á Núpi. Það er einnig sennilegt, að það sé Jón á Núpi, sem,
ásamt Jóni Hallssyni og Eysteini Brandssyni, er vottur að því í
Skálholti 28. marz 1524, að Ögmundur biskup selur Eiríki bónda
Torfasyni 15 hundruð í Gröf á Rangárvöllum og 5 kúgildi fyrir
Grafarbakka í Hrunamannahreppi. 2) Enn má ætla, að það sé Jón
á Núpi, sem 3. janúar 1525 er kaupvottur í Skálholti. 3) 26. júlí 1525, er
Ögmundur biskup kaupir Bjarnaneseignir í Hornafirði af Teiti lög-
manni Þorleifssyni fyrir Hvammseignir í Dölum, er Jón ,,bóndi“
Magnússon meðal kaupvotta. 4) Jón Magnússon, sem gæti verið
Jón á Núpi, kemur við mörg skjöl frá aldamótunum 1500 fram til
1525, bæði á Alþingi og meðal lögréttumanna annarsstaðar, en
hæpið er, að það sé hann, sem getur eftir þann tíma í skjölum, sem
nú þekkjast.
1) Safn til sögu íslands I, bls. 45. 2) D. I. VIII, 204
3) D. I. VIII, 263 4) D. I. VIII, 274.
14
Goðasteinn