Goðasteinn - 01.09.1965, Blaðsíða 87
Guðbjörg Jónasdóttir á Sikíðbakka:
Draumur
Sigríður Ólafsdóttir fyrrum húsfreyja á Skíðbakka í Austur-
Landeyjum, tengdamóðir mín, var fædd og uppalin í Hrútafellskoti
undir Austur-Eyjafjöllum en andaðist að heimili okkar 2. október
1956, þá 92 ára að aldri. Viku eftir andlát hennar, dreymdi mig
þennan draum, sem hér fer á eftir og mér finnst þess virði að festa
á blað og láta koma fyrir almenningssjónir:
Þennan umrædda dag fer sonur Sigríðar, Erlendur Árnason, út i
Krosskirkjugarð til að sjá út grafarstæði móður sinnar. Þegar hann
kemur heim, eigum við hjónin tal um þetta, og hann segir: „Þetta
er ekki alveg ákveðið. Það eru tveir staðir í garðinum, sem ég er
að hugsa um, en ég veit ekki enn, hvorn ég tek“. Svo dettur þetta
niður, og við göngum til náða þetta kveld sem önnur. Þegar ég er
nýsofnuð, dreymir mig, að Sigríður stendur í dyrunum hjá okkur og
segir mjög höstuglega: „f hvoru rúminu á ég að sofa“? og frá henni
stóð eins og vindgnýr. Ég vaknaði strax og við bæði, hjónin, og
ég segi við Erlend: „Þú skalt fara strax í fyrramálið út í Kross-
kirkjugarð og ákveða grafarstæðið“, og það gjörði hann. Síðan hef-
ur mig ekki dreymt Sigríði.
Þetta finnst mér vera bending um, að Sigríður hafi viljað láta
ákveða hiklaust, hvar hún átti að liggja, í garðinum, því hún vildi
aldrei geyma það til morguns, sem hægt var að gjöra í dag.
Ritað í september 1965. G. J.
Goðasteinn
85