Goðasteinn - 01.09.1965, Blaðsíða 14
Krossreiðin er ein ljótasta árás, sem kunn er frá 15. öldinni hér
á landi. Um hana má fá sem hlutlausasta vitneskju í dómi þeim,
sem Erlendur sýslumaður Erlendsson nefndi í Lambey 9. september
1471 og ritaður var á Keldum daginn eftir. Þar segir, að Þorvarður
Eiríksson og fylgismenn hans hafi komið heim að Krossi, dregið
bóndann, Magnús Jónsson, nakinn úr faðmi konu sinnar, Ragnheið-
ar Eiríksdóttur, og vegið hann. Ragnheiði hefðu þeir slegið og
dregið, hrakið og lamið, og rænt fé frá henni. Lýsing þessi er í
kæru Ragnheiðar á hendur Þorvarði, en er ekki orð dómsmanna
sjálfra. Dómsmenn hefja sitt eigið mál á því að lýsa því, að Ólöf
Loftsdóttir og Þorleifur Björnsson hafi löglega fengið Magnúsi
Jónssyni jörðina Kross til eignar. Ennfremur, að Narfi Teitsson,
sem var með Þorvarði í Krossreið, hafi fengið Magnúsi allt það
tiltal og meðgjörð, sem hann átti eða átt hefði eða mætti eigandi að
verða í jörðinni Krossi, eftir því sem þrír menn vitnuðu í bréfi,
sem kom fyrir dóminn. Enn kom fyrir dóminn bréf um það, að
Oddur lögmaður Ásmundsson, hefði úrskurðað jörðina Kross í
Eystri-Landeyjum Magnúsi til fullrar eignar, og svarið var fyrir
dómnum, að Magnús hefði lögfest jörðina Kross og lýst þar lög-
heimili sínu.
Af þessu má ráða það, að svo hefur verið talið, að tilefnið til
Krossreiðar hafi, a. m. k. að einhverju leyti, verið óánægja með
eignarhald Magnúsar á Krossi eða hefnd fyrir það, að hann náði
því. Vcrknaðurinn er engu líkari en hefndarverki, ef lýsing á hon-
um er rétt.
Þorvarður Eiríksson, sem var bróðursonur Ólafar Loftsdóttur,
er talinn í dómnum vitanlega hafa verið höfuðpaurinn í aðförinni,
en Narfi Teitsson lýsti vígi Magnúsar á hendur sér. Þcir voru
dæmdir óbótamenn ásamt fylgdarmönnum sínum, og fé þeirra hálft
undir konung, en annað til frekari ráðstöfunar eftir síðari dómum
eða úrskurðum. Þeir voru útlægir dæmdir til Norcgs á konungs
náðir, en með öllu ógildir ef þeir yrðu særðir eða drepnir. Ólöf
Loftsdóttir, sem var á Lambeyjarþinginu, var dæmd umboðsmaður
Þorvarðar þar til er faðir hans, Eiríkur Loftsson, kæmi til. *)
1) D. I. V, 637-642.
12
Godasteinn