Skírnir - 01.01.1912, Page 16
16
Gröngu-Hrólfr.
áþekkar hreystisögunum af fornaldarhetjum vorum1). Þá
,unnu þeir og England (1066) undir merkjum Vilhjálms
bastarðs, jarls í Rúðuborg (Rouen), er var hinn mesti
hreystimaður og skörungur í hvívetna, og er það einn af
merkustu atburðum mannkynssögunnar og upphaf að frægð
og veldi Englands, er enginn útlendur höfðingi hefir unnið
síðan. Vilhjálmur var kominn að langfeðgatali frá Hrólfi,
er latnesk miðalda-sagnarit kalla »Rollo«, en Hrólfr sá
var foringi víkinga þeirra, er settust í Rúðuborg um upp-
haf 10. aldar og gengu síðan að sáttum við Frakkakonung
árið 911. Hans er að eins lauslega getið í samtíðar-sagna-
ritum, en á ofanverðum dögum sonarsonar hans, Ríkarðs
hins fyrsta (f 996), kom til Rúðuborgar munkur einn frakk-
neskur, sem Dúdó (Dudo) er nefndur, lærður vel að hætti
þeirrar tiðar. Var hann fenginn til að rita sögu forfeðra
jarlsins, og vann að því starfi á dögum Ríkarðs II., sonar
hans (um 1000—1020), með tilsögn gamals höfðingja, er
var nákominn jarlsættinni. Nú hafa ýmsir fræðimenn,
einkum danskir sagnfræðingar (Estrup, Worsaae, Joh.
Steenstrup2), dregið þá ályktun af frásögn Dúdós, að
Hrólfr hafi verið kynjaður frá Danmörku og einn af
konungsættinni dönsku3 * * * * 8), og viljað rengja hina norrænu
arfsögn, sem stendur í sögum vorum, að Hrólfr hafi verið
upprunninn frá Noregi, sonui’ Rögnvalds Mærajarls, Ey-
') Mælt er, að einn þeirra Norðmenninga, er fóru til Italíu, Þor-
steinn að nafni, hafi gripið ]jón með annari hendi, þar sem hann stóð
vopnlaus, og fleygt þvi yfir hallarvegg í Salernó-horg. í annað skifti
segir sagan, að sviknrum nokkrum hafi tekist að teygja hann þangað,
er fyrir var voðalegur dreki eða höggormur, og drap Þorsteinn hann, en
fekk hana af eitri hans (sbr. goðsögnina um Þór og Miðgarðsorminn).
2) Sjá hið mikla rit Steenstrups: Normannerne I—IV., einkuin fyrsta
bindið (Kh. 1876). I „Danmarks Riges Historie", sem nýlega er kom-
in út, er því enn haldið fram, að meira sé að marka sögn Dúdós en nor-
rænu arfsögnina um Hrólf. Þó er Hrólfs eigi getið þar fyr en árið 911,
enda höfum vér engar sannar spurnir af athöfnum hans fyrir sunnan
sæ fyr enn um þær mundir.
8) Flestir síðari sagnamenn Norðmenninga (svo sem Wace og Benoít)
hafa beint farið eftir sögu Dúdós og verða því ekki til greina teknir
sem vitni í þessu máli.