Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1959, Side 54
56
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Árið áður en Gröf fór í eyði varð bardagi á Grand í Eyjafirði.
Þar féllu meðal annarra Smiður Andrésson og Jón skráveifa. Um
Jón segir í kvæði Snjólfs í Flateyjarannál :•
Jón skreiddist skjótt
skráveifa hljótt
kamarsauga út
við ærna sút.
Sú hin ljóta leið
leizt virðum greið o. s. frv. 39).
Hér má skilja, að kamarinn hafi verið sambyggður bæjarhúsunum
á Grund, en „kamarsaugað" hefur opnazt út. Hafi það verið frá-
rennslið, hefur það verið mjög frábrugðið lokræsinu í Gröf, en hafi
vindauga á kamrinum verið nefnt kamarsauga, þá gæti umbúnaður
á Grund hafa verið svipaður því sem var í Gröf.
Það má telja líklegt, að vatni hafi verið veitt inn í húsin í Gröf,
og má vera, að það hafi verið fátítt á bæjum, þar eð sérstakra
staðhátta þurfti við, en ræsi slík sem í Gröf virðast hafa verið
algeng fram eftir öldum, þótt þau hafi verið sjaldgæf orðin á 19.
og 20. öld.
V var sú tóftin í Gröf sem hæst bar og lengst hefur staðið opin
og hefur því allmikið látið á sjá. Þó er vafalítið, að þar hefur verið
(gufu)baðstofa, og má fyrst og fremst bera hana saman við vafa-
lausa baðstofutóft á fornbæ skammt austur frá Sandnesi í Vestri-
byggð á Grænlandi40). Þar er ofn, ekki ólíkur hlóðum, en fyrir
gafli er timburpallur. Steinarnir í ofninum eru mjög sprungnir og
í honum var mikið af viðarösku og mjög sprungnum steinum. Víðar
á Grænlandi hafa fundizt baðstofur, en á íslandi hefur ekki áður
fundizt baðstofa svo öruggt sé, og verður þó að gera ráð fyrir, að
þar hafi þær verið algengar og máske á flestum bæjum. Vera má,
að annað bakhúsið í Fornu-Lá hafi þó verið baðstofa, eins og
Kristján Eldjárn bendir á41), en hún hefur þá verið æði frábrugðin
baðstofunni í Gröf og hinni grænlenzku, sem fyrr var lýst. Þorsteinn
Erlingsson telur eystra bakhúsið á Sámsstöðum í Þjórsárdal vera
baðstofu og einnig sérstæð hús á Eiríksstöðum í Haukadal og Ljót-
ólfsstöðum á Fellsströnd, en eftir lýsingu hans að dæma er það
mjög hæpið, þó að það hins vegar sé hugsanlegt. Þyrfti nauðsyn-
lega að rannsaka þessi hús betur, ef unnt er.