Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1959, Blaðsíða 116
118
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Sé þú hve hvarfla
heima í milli
syndauðugra
sálur manna.
Kveljast andir
í orms gini.
Skelfur ramur röðull,
ræð ek þér að vaknalO).
Síðasta vísuorðið mun upphaflega hafa verið viðvörun til hins
synduga manns að ranka við sér og lifa fegurra lífi. Boðskapur
vísunnar er því hinn sami og fram kemur í Díalógunum og mynd-
unum frá Bjarnastaðahlíð. Og hugmyndin um kvalir syndugra
manna í gini ormsins koma fyrir í þeim öllum.
Þegar myndskerinn í Bjarnastaðahlíð var að verki, hafði margt
breytzt í andlegu viðhorfi fslendinga, frá því að eldahúsið í Hjarðar-
holti var smíðað og skreytt myndum úr fornum goðasögum. Þó er
skemmtilegt að minnast þess, að á þiljum beggja húsanna var eitt
atriði sameiginlegt; á báðum var sýndur dreki eða ormur. Myndin
á 10. öld sýndi Þór í átökum við Miðgarðsorm, en á 12. öld er ormur
látinn svelgja syndugan bróður. 0g hér ætla ég, að fjalirnar frá
Bjarnastaðahlíð sýni áhrif frá fornri myndlist íslendinga. Orm-
urinn á myndinni er tekinn eftir fornum myndum af miðgarðs-
ormi. Til gamans má minna á það, að í Niðurstigningar sögu, sem
eflaust hefir verið til í íslenzkri þýðingu, þegar þiljumar í Bjarna-
staðahlíð voru skornar, er Satan kallaður Miðgarðsormur. Væri
freistandi að ætla, að þýðandi sögunnar hafi kannazt við myndir af
Miðgarðsormi, þótt sagnir af honum hefðu nægt til að gera þá
nafngift áhrifamikla.
Myndskerinn í Bjarnastaðahlíð hefur ekki einungis þreytt þá
raun að snúa frásögn úr riti eftir Gregóríus mikla í myndir; hinn
oddhagi maður hefur sótt fyrirmynd að drekanum úr heiðnu mynda-
safni forfeðra vorra, og er því þakkarvert, að við getum enn gert
okkur nokkra hugmynd um, hversu Islendingar í heiðnum sið hugs-
uðu sér Miðgarðsorm. Það verður ráðið af hálffúnum fjölum í
Þjóðminjasafni.