Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1959, Side 133
SKÝRSLA ÞJÓÐMINJASAFNSINS 1958
135
Grenjaðarstaðarbænum, svo að hægt var að taka blásturinn í notk-
un síðla sumars; virðist hann ætla að gefast vel. Er þá bærinn að
öllu frágenginn, enda fluttist Byggðarsafn Þingeyinga inn í hann
um vorið og var opnað af sýslumanni Þingeyinga, Jóhanni Skapta-
syni, hinn 9. júní. Var þar samankomið margt héraðsmanna, en
þjóðminjavörður var þar einnig staddur og flutti ávarp. Safnvörður
var ráðinn Ólafur Gíslason á Kraunastöðum. Var safnið opið til
15. september, og komu um 1750 gestir. Sú aðsókn er að vísu ekki
mjög mikil, en ferðir manna um Norðurland voru með minna móti
í sumar sökum kulda. Bær og safn þykir hvort tveggja mjög at-
hyglisvert.
I Laufási var unnið af miklu kappi allt sumarið, og voru þar að
verki sömu mennirnir og áður með Sigurð Egilsson í broddi fylk-
ingar. Voru tekin ofan öll framhúsin og byggð upp aftur, einnig
smiðja, svo að nú er búið að endurreisa bæinn allan. Eftir er þó
enn að ganga frá nokkrum minni háttar atriðum innanhúss. Er
með endurreisn þessa bæjar lokið mjög miklu átaki í'fornminja-
vörzlunni, sambærilegu við endurreisn Grenjaðarstaðar.
Þá var og á þessu ári lokið við að gera við gamla bæinn á Hólum
í Hjaltadal, og er hann alveg frágenginn hið ytra, en nokkuð er
eftir að snurfusa hann innan. Þetta verk vann Valdimar Stefánsson.
Gamla bænhúsið á Núpsstað var á þessu ári tekið á fornleifa-
skrá, og tók Sigurjón Magnússon í Hvammi undir Eyjafjöllum að
sér að dytta að því. Gerði hann það um vorið og setti Gísli Gests-
son safnvörður hann inn í starfið og lagði á ráðin. Var lokið öllu
torfverki, og um haustið fóru þjóðminjavörður og Gísli Gestsson
að Núpsstað til þess að ákveða, hvernig gera skuli við húsið að
innan.
Yfirleitt má segja, að vel hafi skilað viðgerðarstarfi gömlu hús-
anna á þessu ári.
Fornleifarannsólcnir. Þjóðminjavörður rannsakaði stóran fom-
mannagrafreit í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal, og í sameiningu
rannsökuðu þeir Gísli Gestsson fornmannagrafir á Selfossi, Kolsholti
í Flóa og Hrífunesi í Skaftártungu. Gísli Gestsson rannsakaði helli
með miklum mannvistarleifum ofarlega í Hallmundarhrauni, kofa-
rústir hjá Hrútafelli á Kili og rauðablástursminjar í Sandafelli á
Gnúpverjaafrétti. Þjóðminjavörður dvaldist alls 17 daga í september
í Skálholti og gerði fullnaðarrannsókn á undirgangi dómkirkjunnar