Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Síða 91
FORNMINJAR I REYKJAVlK
95
vegsgrunni, og myndast sá hluti sennilega fyrir landnám. Sorpleifar,
t. d. brot íláta og múrsteina, flísar úr skífum og molnuð bein, fund-
ust einkum í sundinu milli húss Hjálpræðishersins og Tjarnargötu 4,
og á lóðunum næst sunnan við og vestan svo og í portinu milli Aðal-
strætis 16 og hússins Uppsala, einnig varð vart nokkurra sorpleifa
í holum á svæðinu milli Aðalstrætis 12 og 16.
Leifar húsa eða mannvirkja fundust á nokkrum stöðum. Er þar
um gólfskánir og grjóthröngl að ræða, og svo hagar til, að grjót mun
ekki komið á svæðið af náttúrunnar völdum að neinu marki. í port-
inu milli húss Hjálpræðishersins og Tjarnargötu 4 var flatur steinn
í 60—70 sm dýpi (hola 1) og grjót lá þarna 2 m undir yfirborði
(hola 2). Sunnan hússins að Tjarnargötu 4 steytti við grjót í 2,26
m dýpi (hola 4) og að Suðurgötu 5 við dýpið 1,5 m (hola 5), í portinu
að Suðurgötu 3 við 1,8 m dýpi og holrúm þar undir (hola 11), og
við 1,7 m dýpi (hola 12). 1 portinu milli Aðalstrætis 16 og Uppsala
var grjót 2,44 m í jörð (hola 14). Syðst á svæðinu milli Aðalstrætis
12 og 16 varð vart grjótlagnar í 0,2—0,3 m dýpi (hola 23 og 24), og
steinstétt fannst þar um hálfan metra undir yfirborði (holur 20, 21,
23, 24), er hún sennilega frá tímum innréttinga. Grjót lá svo þarna
í 85 sm dýpi (hola 25), 1,87 m (hol'a 24) og um 1,90 m (hola 23). Norð-
anmegin á svæðinu og vestan fannst steinalögn í 40 sm dýpi, önnur
neðan við, og að henni um 60 sm, loks var á sama stað grjót 1,20 m
undir yfirborði (hola 28). Bak við húsið Grjótagötu 4 komu í ljós
steinar 0,75 m og 1,10 m í jörð (hola 29).
Eins og um gat, rákumst við á dreif af gosöskulaginu VII a, b, sem
oft gengur undir nafninu landnámsöskulag, í holu 24 og 1,85 m niðri,
en það mun fallið um eða skömmu fyrir landnám. I holu 20, lítið
eitt nær götu, kom fram í svipuðu dýpi, þ. e. 2 til 2,05 m, lag, sem
ætla má gólfskán, og möl undir. Virðist þetta elzta lagið eftir manna-
vist á svæðinu hjá vestanverðu Aðalstræti. Var sent úr því sýnis-
horn til aldursgreiningar geislakolsstofu Þjóðminjasafnsins í Kaup-
mannahöfn. Aðgreind voru steinefni og lífrænar leifar, en þær voru
einkum viðarkolamylsna, nær eingöngu úr birki, og smávegis ókol-
aðrar viðarmylsnu. Aldur lífrænu leifanna reyndist:
1340 ± 100 ár B. P., þ. e. 610 e. Kr.
Greiningu gerði H. Tauber verkfræðingur og sýnishornið ber
númerið K-940. Stuðzt var við helmingatímann 5570 ár. (Um aldurs-
greiningar úr Reykjavík hefur áður birzt nokkuð í Árbók 1967, bls.
123—124, og Árbók 1968, bls. 111.)