Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Síða 99
103
TVÆR DOKTORSRITGERÐIR
3.
Þriðji kaflinn er mjög langur og fjallar um helgihúsin í rituðum
heimildum. Er þar úr ýmsu að moða, þótt flestar norrænar heimildir
séu afskrifaðar samkvæmt ofansögðu. Jafnvel þótt það sé gert, verður
samt nógu mikið eftir til þess áð þær séu enn drýgstar til fróðleiks
um efnið. Réttilega sér höfundur, að nauðsynlegt er að gera sér sem
1 j ósasta grein fyrir því, hvernig blótin, helgihaldið, hefur farið fram,
og að hve miklu leyti þau hafa krafizt sérstakra húsa og þá hvemig
húsa. Blótin voru í eðli sínu aðallega tvenns konar, gjafa- eða þakkar-
blót, þegar einstaklingur gefur guðunum eða vættunum gjöf til
þess að þakka og blíðka, og svo samblót, þar sem margt fólk
kom saman til þess að sækja sér kraft til guðanna með því að
eta og drekka sameiginlega af þeim fórnum, sem þeim höfðu
verið færðar. Nefnir Olsen ýmsar heimildir um hvort tveggja með
germönskum þjóðum, bæði rit arabískra ferðamanna og kirkjurit, sem
segja frá trúboði og þá um leið baráttunni við heiðnina. I þessu sam-
bandi er fjallað um lýsingu Snorra á blóti í Hákonar sögu góða, en
ekki telur höfundur sig geta reitt sig á neitt af því nema öldrykkju
og kjötát, og líklega hafi kjötið verið soðið í seyði, sbr. Hymiskviðu
og Haustlöng.
Margt segir höfundur fleira af blótsiðum, en þegar dæmin eru
dregin saman, ber allt að þeim brunni, að blót og allar athafnir, sem í
þeim felast, sé þess eðlis, að vel hefði getað átt sér stað undir beru
lofti. Helgihús voru engan veginn nauðsynleg, en hafi þau verið til að
einhverju marki, hefur slíkt verið árangur þróunar í hagkvæmdar-
átt eða til að gera blótið virðulegra og áhrifameira. Snemma í þess-
um kafla kemur fram sá grunur höfundar, að ekki hafi verið um sér-
stök hús til helgihalds að ræða í heiðnum sið, nema sums staðar hafi
verið stórir veizluskálar, til þess m. a. að halda í þeim blótveizlur, og
þá kannski smáhýsi til að geyma í goðalíkneskjur og fleiri blótföng,
en sérstök helgihús hafi í rauninni alls ekki verið nauðsynlegur liður
í trúariðkuninni. Síðan víkur hann að fjölda heimilda um heiðna ger-
manska siði, allt frá Tacitusi, sem reyndar hefur alls ekkert af helgi-
húsum að segja, gegnum marga kristna höfunda, og niðurstaðan er
sú, að þar sem talað er um helgistaði í þessum heimildum sé hvergi
alveg víst að átt sé við hús, heldur virðist í flestum tilvikum ber-
sýnilega vera átt við helga náttúrustaði, t. d. þegar talað er um
fanum, harug o. fl. Dregur hann inn í þessa umræðu gömul glossari-
um eða orðalista og athugar, hvernig hin gömlu helgistaðaheiti eru