Eimreiðin - 01.09.1916, Blaðsíða 6
mennirnir í danska skjaldmerkinu. Mörg skjaldmerki hafa engar
h(uta- eða dýramyndir, heldur er skildinum bara skift í reiti með
ýmsum litum. En skepnur og jurtir eru í skjaldmerkjunum oft-
lega myndaðar öðruvísi, en þær eru í raun og veru, svo að
myndin verður óeðlileg eða afkáraleg, og áherzlan er oft lögð á
vissa eiginleika þeirra, svo sem tennur og klær ljónsins, ugga fisks-
ins o. s. frv.
íslendingasögur geta um skjaldmerki, bæði Njála og Lax-
dæla. Pað liggur í augum uppi af því, sem sagt hefir verið hér
á undan, að slíkt er tímavilla. Pað eru höfundar eða ritarar sagn-
anna, sem hafa bætt því inn í, af því að skjaldmerki voru notuð
eða orðin kunn á þeirra dögum. Bezt má rekja upptök slíkrar
tímavillu í sögu Magnúsar berfætts. Snorri Sturluson segir um
Magnús konung í þeim bardaga, er hann féll, að hann hafi haft
»hjálm á höfði ok rauðan skjöld, ok lagt á með gulli leó . . .
hann hafði silkihjúp rauðan yfir skyrtu ok skorit fyrir ok á bak
leó með gulu silki«. 1 þessu sambandi getur Ágrip ekki utn neinn
skjöld eða leó, og nefnir ekki heldur gult leó á silkihjúpnum. Höf-
undur Morkinskinnu getur fyrst um skjöldinn, og taka höfundur
Fagurskinnu og Snorri það báðir eftirhonum; en Snorri bætir við
um ljónið á silkihjúpnum. Sýnir þetta einungis, að á þeirra dög-
um var merki Noregskonungs (Hákonar gamla) gult ljón í rauð-
um feldi, en það var þó enn þá persónulegt, og varð fyrst ríkis-
merki undir Hákoni hálegg, og hefir krýnt gult ljón með öxi síð-
an verið skjaldmerki Noregs.1) En Snorri og aðrir ályktuðu þann-
ig af því, sem var á þeirra tímum, að slíkt hefði verið eins til
forna.
Uppruni gamla íslenzka skjaldmerkisins, þorsk-merkisins, er
því miður hulinn. Nýlega hefir skjalavörður A. Thiset ritað grein
í »Aarb0ger for nordisk Oldkyndighed og Historie«, er gefur skýrt
yfirlit yfir sögu þess, að svo miklu leyti sem hægt er að rekja
hana, og hefir hann þá jafnframt gagnrýnt hið nýja skjaldmerki
íslands.2)
x) Sjá um þetta Gustav Storm: Norges gamle Vaaben, Farver og Flag.
Kristiania 1894.
*) »Vaabenmærkerne for Island, Færoerne og Kolonierne. En kritisk Under-
S0gelse.« 1915, bls. 177—198. — [Úr þeirri ritgerð eru myndirnar 1—3, 6 og
9—10 í þessari ritgerð teknar, og hefir »Hið kgl. norræna Fornfræðafélag« sýnt
Eimr. þá góðvild, að lána henni myndamótin. RITSTJ.]