Andvari - 01.01.1986, Qupperneq 76
74
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
lausa andspænis miskunnarlausu valdi (flótdnn til Egyptalands); eða reynt
að túlka von í vonsviknum heimi með skírskotun til jólabarnsins eða upp-
risunnar, í vissu þess að slík skírskotun hefur einhverja merkingu í vitund
lesandans?
Það er verkefni guðfræðingsins að fjalla um hina guðfræðilegu þýðingu
texta. Bókmenntafræðingurinn spyr ekki um hvað trúin sé í verkinu heldur
hvernig: hvernig birtist hún í einhverjum ákveðnum texta, hvert er hlutverk
hennar í honum? Hann kann að hafa áhuga á guðfræðilegum þáttum bók-
menntanna — en þá er það væntanlega ekki vegna þess að þeir snerta trú
hans eða vantrú heldur vegna þess að þeir tilheyra þeirri menningu, sem
hann er sjálfur afsprengi af. Rétt eins og hann athugar hvernig sálgreining
eða marxismi birtast í einhverju tilteknu bókmenntaverki án þess að hafa
sérstakan áhuga á inntaki þeirra fyrirbæra að öðru leyti. Áhugi guðfræð-
ingsins beinist oftast meir að inntakinu: gildi trúarinnar, þýðingu hennar.
Margir líta svo á, að róttækar breytingar á hugsun og lífsviðhorfum eigi
sér stað í samtímanum, eitthvað svipað því, sem gerst hefur þegar eitt
menningarskeið víkur fyrir nýju og heildarskilningur manna á mörgum
meginþáttum lífs- og heimsskilnings tekur breytingum. Hið gamla verður
merkingarlítið en við tekur ný heildarsýn (paradigma), þar sem nýjar hug-
myndir ráða og ný sannfæring tekur völdin. Það er guðfræðinni lífsnauð-
syn að skynja og skilja tímanna tákn að þessu leyti1). Til þess lítur guðfræð-
in meðal annars til bókmenntanna. Ekki aðeins til þess að skilja tímann
betur, heldur einnig til þess að huga að þeim sessi, sem trúnni er ætlaður
í hinni nýju vitund nýs tímabils. Bókmenndrnar hafa sýnt það svo ekki
verður um villst að þær eru þess megnugar að skilgreina og túlka reynslu
mannsins, ekki síður en hin sundurgreinandi vísindi. Stríðið, firringin,
eyðingin, óttinn, vonin: allt er það ítarlega krufíð og túlkað í ýmsum grein-
um samtímabókmennta.
Áhugi guðfræðinnar beinist að því meðal annars, hvernig hún sjálf
speglast í bókmenntum hins nýja tíma, hún sjálf og sá boðskapur, sem hún
fæst við. Staðreyndin er sú, að bókmenntir samtímans fjalla mjög um atriði,
sem höfða til guðfræði og trúar. Þess vegna getur guðfræðin litið á skáldið
og raunar listamenn yfirleitt sem samverkamenn í nýjum skilningi. Guð-
fræðin er því ekki að leita að „kristnum" skáldum, heldur hefur hún áhuga
á skáldinu, sem túlkar mannlega reynslu og finnur æðaslátt samtíðarinnar.
Slík verk hljóta að kalla á athygli guðfræðingsins sem fæst við sömu spurn-
ingar og telur sig einnig þess umkominn að benda á einhver svör. En hvers
virði eru svör trúarinnar? Skilst tungutak hennar? Bókmenntirnar geta
gefið til kynna, hvers virði svör trúarinnar eru í mannlegri reynslu.
í grein þessari verður í fyrstu reynt að gera almennt grein fyrir þeirri
meginhugsun, sem býr að baki ljóðum Snorra Hjartarsonar en í framhaldi