Iðunn : nýr flokkur - 01.07.1930, Síða 118
IDUNN
Ritfregn.
Siguvjón Friðjónsson: Skriftamál einsetumannsins. Akur-
eyri. Prentsmiðja Odds Björnssonar. MCMXXIX.
Kver þetta er einkennilegt og óvanalegt fyrirbæri í íslenzkum
bókmentum síðari ára. Eitt af heiztu Ijóðskáldum vorum ræðir hér
um dýpstu og viðkvæmustu spurningar mannshjartans, ekki á vís-
indalegan heldur á skáldlegan hátt. Hér er um að ræða eintal
sálarinnar við sjálfa sig og við guð. Og það eintal er óvenjulega
fagurt og hugnæmt.
Hér sér maöur, hve lítiö það er af öllu málavafstri trúarbragð-
anna, sem í raun og veru skiftir nokkru máli, — hvað umbúðirnar
eru miklar í vöfunum, en innihaldið lítið fyrirferðar, þótt það sé
að vísu gullvægt. Leit mannssálarinnar að guði, svar guðs til sál-
arinnar, ódauðleikinn ásamt viðhaldi verðmætanna, — þetta er
það, sem skiftir máli í trúarbrögðunum, en hvorki meyjarfæðing
né líkamleg upprisa Krists, — jafnvel ekki guðdómur Krists (í
„rétttrúaðri" merkingu) eða friðþægingarlærdómurinn, sem er af-
leiðing af því, að mennirnir hafa búið sér til falskan guð, strangan
harðstjóra, sem þarf að kaupa til þess að vera sáttur við mennina.
Hér ber mikið á eðli og einkennum dulspekingsins; djúpir dalir
fjarlægðarinnar frá guði skiftast á við sólbjarta tinda nálægðar
hans og fyllingar. Samúðin með öllum og öllu kemur greinilega í
ljós, samhugurinn við aðra menn, — samstillingin við guð. En að
faðma guð er eins og að faðma að sér loftið eða vindinn, — hann
sleppur altaf úr greipum manns. Því er óró leitandans auðsæ,
jafnvel á þeim augnablikum, þegar skáldinu virðist, að nú hafi það
fundið þetta, sem það var að leita að. Og þó er nálægð guðs og
fylling hans trúmanninum hinn öruggasti og efalausasti veruleiki. —
Ég ætla að lokum að taka hér upp sem sýnishorn upphafið og
endirinn á XII. kaflanum, sem heitir „Návist hins ósýnilega11:
„Hið eilífa snertir manninn eins og háfjallakyrð. Eins og dásam-
legur friður. Eins og hamingja, sem ekki verður lýst með orðum.
Eins og niður fjarlægra vatna. Eins og vængjaþytur hvítra svana.
Eins og hvískur gróandi skóga.
í faðmi þess verður fljót sorgarinnar lygnt. Harmur hins liðna
eins og brimgnýr í miklum fjarska.
Eins og hlýr geislastafur, sem brýzt í gegn um ský; brýzt f
gegn um myrkur og kulda — svo er kærleikur hins dularfulla".
„Liðin æfi er á að sjá stutt eins og andartak.
Én hið ókomna er eins og haf, þar sem hvergi sér til landa.
En þetta haf er f faðmi eilífðarinnar, í faðmi þínum, — þú hinn
mikli og dularfulli.
Vndislega Iætur vængjaþytur hinna hvítu svana f eyrum þess,
sem búinn er til ferðar. — Eins og niður fjarlægra vatna strýkur
hvískur hinna gróandi skóga um eyru mín. — —“
Jakob Jðh. Smári.