Kirkjuritið - 01.12.1947, Blaðsíða 73
Kirkjuritið.
Ræða Eysteins Jónssonar.
341
sem ég tel ástæðu til að þakka íslenzkri prestastétt alveg
sérstaklega.
I þessu landi hafa aldrei verið háðar trúmáladeilur með
þeim hætti sem tíðkazt hefir með öðrum þjóðum, hvað
þá trúarbragðastyrjaldir, sem víða hafa verið þyngsta böl.
Þetta er tvímælalaust ekki sízt að þakka íslenzkri presta-
stétt, sem boðað hefir kristinn dóm og guðsorð af þeirri
góðvild og með því umburðarlyndi, sem þeim sæmir, er
svo göfugu hlutverki gegna. Vafalaust hefir prestastéttin
og þjóðin öll í þessu notið þess anda, sem ríkt hefir í
Prestaskólanum.
I margar aldir hafði prestastéttin með höndum forustu
um fræðslumál þjóðarinnar, og er það kunnara en frá þurfi
að segja, að henni fór þetta svo úr hendi, að til fyrirmyndar
var, miðað við ástæður þær, sem við var búið. Með fræðslu-
starfi sínu og með óvenjulega miklu starfi að þjóðlegum
fræðum á prestastéttin íslenzka höfuðþátt í verndun tung-
unnar og bókmenntanna.
Prestastéttin slitnaði aldrei úr tengslum við alþýðu manna
í landinu. Þar var aldrei neinn veggur á milli. Prestarnir
sátu við sama borð og alþýða landsins. Varð þetta vafa-
litið undirrót þess, að jafnframt því, sem prestastéttin
hafði forustuna um fræðslu- og menningarmál í samvinnu
við heimilin, þá skipuðu prestarnir sér yfirleitt í fylkingar-
brjóst í þeirri baráttu, sem háð var fyrir sjálfstæði íslenzku
þjóðarinnar.
Islendingar eiga margt að þakka prestum sínum og
Prestaskólanum. Þegar litið er til baka, þá finnst mér svo
mikils um þetta vert, að ég óska þess nú, að íslenzka þjóðin
komizt í jafnmikla þakkarskuld við skólann og prestana
fyrir störf næstu 100 ára og hún stendur nú í fyrir störf
þess tímabils, sem við minnumst hér í kvöld.