Kirkjuritið - 01.12.1947, Blaðsíða 16
284
Selma Lagerlöf:
Nóv. - Des.
þar sem uxu há tré, bæði blaðlaus lauftré og græn barrtré. Bak
við rjóðrið var klettaveggur, og þar sáu þeir rammlega hurð. Nú
sú Hans ábóti, að þeir voru komnir á leiðarenda, og hann stcig af
baki. Barnið opnaði þungu hurðina fyrir honum, og hann leit
inn í fátæklegan helli með berum steinveggjum. Ræningjakonan
sat við elda, sem brunnu á miðju gólfi. Ut við vegginn voru bæli
úr grenilurkum og mosa, og í cinu þeirra lá ræninginn og svaf.
„Komið þið inn, þið þarna úti,“ kallaði ræningjakonan án þess
að standa upp, „og takið þið hestana inn með ykkur, svo að þeim
verði ekki kalt í nótt.“ Hans ábóti gekk nú djarflega inn í hell-
inn, og leikbróðirinn kom á eftir honum. Það var fátæklegt þarna
inni, og ekkert var gert til þess að halda jólin hátíðleg. Ræningja-
konan hafði hvorki bruggað né bakað, hún hafði hvorki sópað
né þvegið. Börn hennar sátu kringum pott og átu, en það var
enginn hátíðarmatur, aðeins þunnur vatnsgrautur. Ræningjakon-
an talaði eins drembilega og einarðlega og virðuleg bóndakona.
„Seztu við eldinn, Hans ábóti, og vermdu þig,“ sagði hún, „og
ef þú hefir mat með þér þú neyttu hans. Því að ég býzt ekki við,
að þú viljir matinn, sem við hér í skóginum búum til. Og ef þú
ert þreyttur, getur þú hallað þér í eitthvert af bælunum þarna.
Þú þarft ekki að óttast, að þú sofir yfir þig. Eg sit hér við eldinn
og vaki, og ég skal vekja þig, svo að þú fáir að sjá það, sem þú
ert kominn til að sjá.“
Hans ábóti hlýddi ræningjakonunni og tók fram mat sinn, en
hann var svo þreyttur, að hann gat varla matazt, og óðara en hann
hallaði sér út af, var hann sofnaður. Leikbróðurnum var líka vísað
til hvílu, en hann þorði ekki að sofna, því að hann þóttist þurfa
að hafa gætur á ræningjanum, að hann risi ekki upp og tæki ábót-
ann höndum. Smám saman sigraði þrcytan hann líka, svo að hann
sofnaði.
Þegar hann vaknaði, sá hann, að Hans ábóti var kominn fram
úr rúminu og sat nú við eldinn og talaði við ræningjakonuna.
Utlægi ræninginn sat líka við eldinn. Það var hár, magur maður,
þunglamalegur og þungbúinn. Hann sneri baki að Hans ábóta,
og var því líkast, að hann vildi ekki láta sjá, að hann hlustaði á
samtalið.
Hans ábóti sagði ræningjakonunni frá öllum jólaönnunum, sem
hann hafði séð á leiðinni, og hann minnti hana á jólaveizlurnar
og jólaleikina, sem hún sennilega hefði tekið þáct í á æskuárun-
um, þegar hún lifði í samfélagi við annað fólk. „Það er ranglæti
gagnvart börnum ykkar, að þau fá aldrei að hlaupa í skrýtnum
búningum á götunni né leika sér í jólahálminum,“ sagði Hans ábóti.
Ræningjakonan svaraði fyrst í styttingi og með þverúð, en smám