Prestafélagsritið - 01.01.1923, Side 67
62
]ón Helgason:
Prestafélagsritið.
ónýtis unnið, en að hér sannaðist hið alkunna orð: »Einn sáir,
annar uppsker*. Sonurinn gengur hér inn í starf föður síns.
III.
Kirkja Islands var frá upphafi í bezta skilningi þjóðleg
stofnun. Um leið og hún flytur suðræna menningu inn í landið
tekst henni að samþýða hana fagurlega því sem til var af
þjóðlegri menningu úti hér. í lifandi samstarfi við kirkjuna
þróast þjóðfélagslífið og í skjóli kirkjunnar vex og blómgast
sú menning, er verða skyldi mesti heiður hins fámenna þjóð-
félags öldum saman og alveg fram á þennan dag. Það voru
kirkjunnar menn, er settu á fót fyrstu skólana hér innan lands,
í Skálholti og Hólum, í Haukadal og Odda. Og svo þótti
mikið til þeirrar mentunar koma að ekki þóttu aðrir klerkar
lærðari um Norðurlönd á 11. og 12. öld en íslenzkir, enda er
getið þriggja íslendinga, sem komust til æðstu kirkjulegra met-
orða í Noregi á þeim tímum, sem sé þeir Kolur Þorkelsson
lærisveinn Isleifs, er varð biskup í Osló (»Víkverja-biskup«),
Óttar (t 1135), er biskup varð í Björgvin (eftir Magna) og
ívar skrauthanski Kálfsson, biskup í Niðarósi (f c. 1140) faðir
Eiríks erkibiskups blinda. Kirkjunnar menn leggja grundvöll
íslenzkrar sagnaritunar, þeir hafa líklega orðið fyrstir til að
safna Eddu-kvæðunum og með fulltingi þeirra eru elztu lög
vor í letur færð. Kirkjunnar menn verða aðalmenningarfröm-
uðir þjóðarinnar á farsælasta tímabili íslenzka lýðveldisins. Því
að naumast er það vafamál, að tímabilið frá miðri 11. öld,
eftir að kristnin hefir náð nokkurn veginn þroska, og fram
á síðasta hluta 12. aldar hafi verið farsælasta tímabilið, ekki
aðeins í sögu lýðveldisins, heldur í sögu vorri yfirleitt. »Sá
kraftur, sem búið hafði hjá heiðnum forfeðrum vorum, var þá
orðinn helgaður af anda kristindómsins og bar í mörgu tilliti
blómlega ávexti; enda mun um þær mundir hafa mátt langt
leita, til að finna þjóð, sem betur hafi unað hag sínum en
almenningur á Islandi« (E. Briem.).
Þegar loks litið er til þess, hversu sá kristindómur, sem