Búnaðarrit - 01.01.1991, Page 23
Kveðjuorð
Einar Ólafsson bóndi
F. 1. maí 1896
D. 14. júlí 1991
Einar Ólafsson bóndi í Lækjarhvammi, Reykjavík er nú fallinn í valinn og
var hann jarðsettur í Fossvogskirkjugarði við hlið konu sinnar. Hann var 95
ára að aldri er hann lést, og með honum er genginn sá maður sem mest og
best áhrif hafði á búnaðarsögu Kjalarnesþings. Löngum og giftudrjúgum
starfsferli er nú lokið og engum gert rangt til þótt fullyrt sé, að í félags- og
búnaðarmálum heima í héraði markaði Einar dýpstu sporin. Hlutur hans á
landsvísu var heldur ekki smár því að í áratugi skipaði hann forystusveit
íslenskra bænda á viðburðaríku og farsælu tímabili í sögu landsins.
Einar fæddist í Flekkudal í Kjós og sleit þar barnsskónum en foreldrar
hans voru þau hjónin Ólafur Einarsson bóndi þar og kona hans Sigríður
Guðnadóttir. Ættir þeirra verða ekki raktar hér en bæði munu þau hafa
verið að stofni til úr Kjós, en nokkur ættartengsl voru einnig í Húnaþingi.
Rækti Einar þá frændsemi vel og var það gagnkvæmt. Geta má þess að afi
Halldórs Pálssonar fyrrv. búnaðarmálastjóra og Ólafur í Flekkudal faðir
Einars voru bræðrasynir. Þá voru þeir bræðrasynir, Einar í Lækjarhvammi
og hinn kunni klerkur séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík, sem varð
þjóðsagnapersóna í lifanda lífi vegna kunnáttu sinnar í vélfræði.
Einar tilheyrði hinni svonefndu aldamótakynslóð og ólst hann upp í
umhverfi og við búskaparhætti sem höfðu nánast ekkert breyst frá land-
námstíð. Þessi kynslóð gerði síðan atvinnu- og lífskjarabyltingu á fyrri hluta
tuttugustu aldar, en það kostaði ekki aðeins blóð, svita og tár eins og
stundum er tekið til orða heldur einnig miklar fórnir og erfiði. Þessu fólki
eigum við, sem erfum landið, mikið að þakka okkar lífskjör í dag og segja
má það orð að sönnu að þúsund ára tilvera þjóðarinnar sé eilíft kraftaverk,
eins og Davíð Stefánsson segir í einu kvæða sinna.
Kjósin var og er menningarsveit og mun Einar hafa notið þess. Enda þótt
barnakennsla hafi ekki verið nema eitt til tvö ár í sveitinni, þá náði Einar því
að komast til dvalar suður á Seltjarnarnes til vinafólks og gekk í Mýrarhúsa-
skóla. Dvöl fjarri heimili jók á víðsýni og kjark hins unga manns og ekki síst
XXI