Búnaðarrit - 01.01.1991, Blaðsíða 158
afmælis Skógræktarfélagsins á árinu 1990 með myndarlegu átaki í piöníun
landgræðsluskóga. Forseti íslands, Vigdís Finnbogadóttir, er verndari
Átaksins.
Landgræðsla ríkisins hefur staðið fyrir umfangsmikilli uppgræðslu á
Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði vegna Blönduvirkjunar síðan 1981,
og er verkefnið greitt af Landsvirkjun. Þar var dreift í sumar með
landgræðsluflugvélinni Páli Sveinssyni 380 tonnum af áburði og grasfræi, en
heimamenn dreifðu 40 tonnum. Unnið var við fyrirhleðslur til varnar
landbroti af völdum fallvatna í öllum kjördæmum landsins. Haustið 1989
hófust framkvæmdir í Gunnarsholti vegna samvinnuverkefnis nokkurra
aðila um umhverfisáhrif skóglendis í Gunnarsholti. Þar verður rannsakað
mjög nákvæmlega samspil veðurs, jarðvegs, sólarljóss og trjáa. Á miðju
sumri 1988 var 16 hektara tún í Gunnarsholti valið sem tilraunasvæði og
gengið frá samstarfi Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins að Mógilsá,
Landgræðslunnar, kanadísku ríkisskógræktarinnar og Queens háskóla í
Ontario. Landgræðslan tók að sér að sjá um landið, ýmsar framkvæmdir og
eftirlit. í júlí og ágúst var svo plantað 160.000 asparplöntum í svæðið.
Unnið var ötullega að ýmsum gróðurverndarstörfum á árinu. Eins og oft
áður voru haldnir fjölmargir fundir með bændum og sveitarstjórnum um
upprekstrarmál og gróðurvernd. Það, sem hæst bar á þessu sviði, var, að
samið var við bændur að reka ekki sauðfé á afrétt Hvolhreppinga og Vestur-
Eyfellinga, auk þess sem dregið var nokkuð úr upprekstri á fjölmarga aðra
afrétti landsins. Unnið var að friðunaraðgerðum í Mývatnssveit og á
Hólsfjöllum. Það er vaxandi áhyggjuefni hjá okkur, hve hrossum fjölgar
stöðugt, og sífellt fleiri vandamál skjóta upp kollinum varðandi beit
stóðhrossa og reiðhesta. Unnið var í samvinnu við hagsmunaaðila hrossa-
bænda að bæta skipulag hestaferða sérstaklega um hálendi landsins. Pétur
Hjálmsson kom okkur til aðstoðar í hlutastarfi við eftirlit á hrossahögum.
Landgræðslan mun leggja sérstaka áherslu á að taka beitarmál hrossa
föstum tökum. Það stefnir í verulegt óefni með ofbeit á afmörkuðum
svæðum af völdum hrossa. Hagsmunaaðilar innan hrossaræktarinnar og
reiðhrossaeigendur verða að taka höndum saman með Landgræðslunni og
afstýra frekari gróðurskemmdum af völdum hrossa.
Hólsfjöllin verða án efa aðaláherslusvæði Landgræðslunnar á næstu
árum. Stefnt er markvisst að því í samráði við hlutaðeigandi bændur og
sveitarstjórnir Fjalla- og Öxarfjarðarhrepps að friða Hólsfjöllin alfarið fyrir
búfjárbeit. Til þess að ná fram þessu markmiði verður að girða á milli
Hólsfjalla og Öxafjarðar, og verður það væntanlega gert á næsta sumri.
Bændur á Hólsfjöllum eru þegar byrjaðir að fækka sínu fé, og vonandi tekst
fullt samkomulag við bændur um friðun þessa alvarlegasta uppblásturs-
svæðis landsins.
132