Búnaðarrit - 01.01.1991, Page 225
breytingar á lögum Búnaðarfélags íslands, sem telja mætti til tíðinda. Væri
annars vegar ákvæði um beina aðild búgreinafélaga að búnaðarsamböndum
og þar með að Búnaðarfélagi íslands. Hins vegar væri fjölgun stjórnar-
manna félagsins úr þremur í fimm og breytt tilhögun kosningar. Af öðrum
málum þingsins nefndi hann m.a. Afangaskýrslu sjömannanefndar um
framleiðslu sauðfjárafurða og tvö þeirra mála, sem stjórn félagsins lagði
fyrir þingið, þ.e. um búfé á vegsvæðum og bætta umgengni ísveitum.
Forseti minntist á fjármál félagsins og taldi það nokkur tímamót, að í
fyrsta sinn hefði Búnaðarþing getað samið fjárhagsáætlun, þar sem hin
félagslega starfsemi stofnunarinnar væri kostuð af eigin tekjustofni vegna
breytinga á lögum um Búnaðarmálasjóð. Hann gat einnig um ágætan
árangur af rekstri Bændahallarinnar á árinu 1990, sem fæli í sér umtalsverða
stoð til eigenda sameignarinnar.
Þá mælti forseti: „Og nú við þingslitin vil ég þakka þingfulltrúum öllum
og starfsmönnum vel unnin störf um þingtímann. Ég þakka sérstaklega
skrifstofustjóra þingsins, Ólafi E. Stefánssyni, ráðunaut, og bókara gjörða-
bókar, Júlíusi J. Daníelssyni, ritstjóra, fyrir frábæran dugnað og samvizku-
semi. Ég þakka skrifurum og meðforsetum mínum góða samvinnu, og
sérstaklega vil ég þakka skrifstofustúlkunum Ásdísi Kristinsdóttur, Rósu
Halldórsdóttur og Sigríði Þorkelsdóttur.
Að svo mæltu þakka ég gestum fyrir komuna, og búnaðarþingsfulltrúum
óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu.“
Nú kvaddi sér hljóðs aldursforseti þingsins, Jón Ólafsson. Þakkaði hann
forseta, varaforsetum, samþingsmönnum og starfsliði gott samstarf. Sér-
stakar þakkirfærði hann Hirti E. Þórarinssyni, sem stjórnaðhefði Búnaðar-
þingi með ljúfmennsku og festu, en léti nú af formennsku í stjórn Búnaðar-
félags íslands. Hann þakkaði einnig sérstaklega Steinþóri Gestssyni, 1.
varaforseta og stjórnarmanni, fyrir samveruna, en hann léti nú einnig af
starfi sem stjórnarmaður í félaginu. Óskaði hann þessunt tveimur félags-
málafrömuðum allra heilla og góðrar heimkomu. Bauð hann þeim að
heimsækja næsta Búnaðarþing. Því næst beindi aldursforseti orðum sínum
til samþingsmanna sinna og bar fram óskir um að hitta þá heila á næsta
Búnaðarþingi.
Forseti þakkaði aldursforseta góðar óskir og boð hans.
Jónas Jónsson, búnaðarmálastjóri, ávarpaði því næst Hjört og Steinþór
fyrir hönd starfsfólks Búnaðarfélags fslands og mælti m.a., að þeir hefðu
báðir notið mikillar hjúahylli hjá starfsfólki félagsins. Síðan afhenti hann
þeim gjafir frá starfsfólkinu.
Steinþór þakkaði gjöfina og þann hlýhug, sem að baki bjó. Hjörtur
þakkaði einnig gjöfina og Steinþóri og Jónasi fyrir gott samstarf.
Að svo mæltu sagði forseti 75. Búnaðarþingi slitið.
199