Morgunn - 01.06.1967, Qupperneq 8
2
MORGUNN
sálarharms, rúmar nú ekki gleðina, fögnuðinn, sem altekur
þessa menn. Ekkert, sem þeir höfðu áður lifað undursamlegt
með meistara sínum, gat jafnazt á við þetta, ekki kyrrlát-
ustu unaðarstundirnar, sem þeir höfðu átt með honum, ekki
stórfelldustu kraftaverkin hans, sem þeir höfðu orðið vottar
að, — nei, ekkert jafnaðist á við það, sem þeir sáu nú og
heyrðu.
Þeir sitja enn á sama stað og þeir höfðu setið á hið dapur-
lega skírdagskveld. Borðið, sem þeir sátu þá við, stendur
þarna enn. Sætið hans stendur þarna enn. Og sjálfur stendur
hann nú mitt á meðal þeirra.
Stórfelldri undrun fylgir að jafnaði þögn. Svo verður hér.
En meðan þeir standa í orðlausri undrun frammi fyrir hon-
um, sem þá var látinn, minnast þeir með sjálfum sér þess,
hver birta hafði verið í rómi hans, þegar hann sagði við þá
hinzta kveldið:
,,En nú fer ég burt til hans, sem sendi mig, og enginn
yðar spyr mig: Hvert fer þú?“
Hvert hafði hann farið? Það vissu þeir ekki enn. En eitt
vissu þeir: Hann var hjá þeim aftur. Þeir vissu það ekki þá,
vér vitum það nú, að vissa þeirra um upprisuna markaði
upphaf nýrrar aldar á jörðu, að hún var neistinn, sem kveikti
það bál, er brann og fór um löndin og fæddi af sér kristna
kirkju.
Þarna stóð hann í salnum stundarkorn, unz hann hvarf.
Og sakir undrunar, gátu þeir ekki mælt. Af lotningarótta
titraði sál þeirra, og þó höfðu þeir enn enga hugmynd um
hvert hlutverk beið páskanna í lífi kynslóðanna, enga hug-
mynd um, hve mörg tár þeir áttu eftir að þerra, enga hug-
mynd um alla þá sálarkvöl, sem þeir áttu eftir að stilla,
enga hugmynd um það magn sálarfriðarins, sem þeir áttu
eftir að flytja kynslóðunum.
Lotning og gleði héldust í hendur í loftsalnum eftir að
hinn óvænti gestur var horfinn, horfinn jafn skyndilega,
jafn óvænt og hann kom.