Morgunn - 01.06.1967, Blaðsíða 75
MORGUNN
69
hana, rétt við nefið á konunni sinni, án þess að vekja grun
hennar.
Að vísu segir Anderson, að það sé mögulegt, að Crookes
hafi ekki komizt að raun um svik hennar, fyrr en hann hafi
verið búinn að stofna til hins nána sambands við hana, og
þá ekki átt nema um tvo kosti að velja, að ljósta upp svik-
unum og missa af biíðu hennar, eða hilma yfir þau og halda
sambandinu áfram, — og valið síðari kostinn.
Enn telur Anderson, að Florence hafi sagt sér, að systur
hennar tvær, Kate og Edith, hafi báðar verið svikamiðlar
og stundað það þokkalega starf í fjárgróðaskyni. — Sjálf
kvaðst hún einnig hafa snuðað fé út úr Crookes.
Því minnist ég á þetta óþverramál hér, að það hefur nú í
vetur verið töluvert á dagskrá í enskum blöðum. Hefur í
þeim deilum rækilega verið sýnt fram á það, hve ódrengileg
og fjarstæðukennd þessi árás sé í alla staði.
Bent er réttilega á það, að árásin sé byggð á framburði
gamalmennis um samtal, sem hann telur sig hafa átt við
Florence, sem hann þá þekkti sama og ekki neitt, á ásta-
fundi þeirra, sem raunar er ekki sennilegur, þar sem hún þá
var gift miðaldra kona. Og frá þessu segir hann fyrst meira
en hálfri öld síðar. Hver mundi taka slíkan framburð örvasa
gamalmennis gildan, sem sönnun? Og þó einhver vildi vera
svo trúgjarn, að trúa karlinum, hvar er þá sönnun fyrir því,
að Florence hafi sagt honum satt um samband hennar við
Sir Crookes?
Og hvaða maður með heilbrigða skynsemi mundi telja það
sennilegt, að Florence, þá gift kona og í góðu áliti sem mið-
ill, hefði ótilkvödd farið að játa það fyrir strák, sem hún
sama og ekkert þekkti, að miðilsstarf hennar væri eintóm
svik, og að einn frægasti vísindamaður Englands hefði að-
stoðað hana við svikastarfsemina, gefið út falskar skýrslur
um rannsóknir sínar og haldið fram hjá konu sinni með
henni í þokkabót? Eða var það líklegt, að hún jafnframt
færi að ákæra fyrir þessum unga manni systur sínar fyrir
ólöglegan fjárdrátt og sviksamlega starfsemi?