Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Page 58
56
Eiríkur Rögnvaldsson
í báðum þessum tilvikum er því um að ræða kerfisbundnar undan-
tekningar; andlög af ákveðinni tegund, sem er afmörkuð merkingarlega
eða setningafræðilega, haga sér öðruvísi en önnur andlög. í báðum til-
vikum er hægt að koma með skýringar á þessari sérvisku, en þær skipta
ekki máli hér.
A eldri stigum íslensku virðist þessu aftur á móti vera öðruvísi varið.
Þar verða ekki fundin nein sérkenni sem réttlæti hvert orðaraðartil-
brigði, ef svo má segja. Sömu orðin eða liðirnir standa sem andlag
sömu sagna, en koma ýmist á undan eða eftir. Iðulega kemur mismun-
andi röð fyrir í setningum sem standa saman, eins og Halldór Ármann
Sigurðsson hefur bent á (1988:14-15):
(47) a. (að) fáir eða öngvir muni sterkari verið hafa á Islandi
þeirra er einhamir hafa verið.
(Finnboga saga ramma, s. 661)
b. (ef) nokkrir hefðu séð þetta fé og kvaðst enginn séð hafa.
(Hrafnkels saga Freysgoða, s. 1399)
c. (að) henni þótti hann eigi hafa sér allt satt til sagt um útkomu Kjartans.
Bolli kvaðst það sagt liafa sem hann vissi þar af sannast.
(Laxdœla saga, s. 1604)
Það er auðvitað enginn vafi á því að það er ekki alltaf tilviljanakennt
hvaða orðaröð er notuð; fornafnaandlög eru t.d. mun líklegri en önnur
andlög til að fara á undan fallháttarsögn, eins og áður er nefnt (sjá
Halldór Ármann Sigurðsson 1988). En þar er um tilhneigingu að ræða,
en ekki fasta, ófrávíkjanlega reglu. Án efa er hægt að finna fleiri dæmi
um einhverjar slíkar tilhneigingar til að taka eina orðaröð fram yfir aðrar
hugsanlegar við tilteknar aðstæður. Það er hins vegar mjög erfitt að
segja til um hvers eðlis slíkar tilhneigingar eru; hvort þær tengjast stíl,
frásagnarefni, aldri texta, einstökum höfundum, o.s.frv. Þótt þetta séu
mjög spennandi spurningar verður ekki leitað svara við þeim hér; þær
lenda utan ramma þessarar athugunar. Meginatriðið er að setningafræði
fornmáls hefur leyft þá fjölbreytni sem hér er sýnd, en setningafræði
nútímamáls gerir það ekki.