Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Page 81
„En er þeir knjáðu þetta mál... “
79
það sem næsta skref að athuga, hvort so. knjá gæti verið mynduð af
sömu sagnrót og knýja, þ. e. frie. rótinni *gen- ‘þrýsta’, sem myndaði
germönsk ofbeldis- og áreynsluorð með klasann kn- í framstöðu (sbr.
2.1.1).
Það má sjá viðleitni í þessa átt í orðsifjabók Alexanders Jóhannesson-
ar (1956:332-37). Sá höfundur nefndi so. knía varfærnislega á meðal
annarra germanskra kn-orða í þeim merkingarhópi, sem felldur er undir
frie. rótina *gen-, en tengdi sagnirnar knía og knýja ekki saman sér-
staklega. Rótin *gen- er m. a. sögð hafa haft afbrigðið frie. *gn-eibh-.
I því samhengi er forníslenzka nafnorðið knífr nefnt og önnur dæmi
um það orð í germönskum málum (væntanlega < frg. *knTba-)\ í sömu
andrá eru talin orð með germanskt *p, s. s. mlþ. kmpen ‘skera’. Við upp-
talningu þessara orða bætti Alexander eftirfarandi athugasemd: „gehört
hierherauch knía vb. inderbed. „uberlegen, bedenken, untersuchen“?“
(1956:334).
Alexander rökstuddi þessa hugmynd ekki frekar, sýndi ekki end-
urgerða mynd sagnarinnar og nefndi engin orð í skyldum málum,
sem so. knía gæti tengzt nánar. Ekki kemur fram, hvort hann taldi
íslenzku sögnina hafa þróazt úr mynd með indóevrópska varahljóðið
*bh (frie. *gn-eibh- > frg. *kn-Tb-), en reyndar hefði þá mátt búast við
önghljóðinu varðveittu, þ. e. físl. *knífa. Hér er heldur ekki útskýrt,
hvernig merkingin ‘hugleiða, rannsaka’ tengist merkingu orðsins knífr
og sagna, sem merkja ‘klípa’, ‘skera’ o. þ. h.
Merkingarinnar vegna er vissulega hugsanlegt, að so. knjá hafi átt
hér heima sem sjálfstæð sögn af frie. rótinni *gen-. Meðan ekki fást
upplýsingar um beinar samsvaranir í öðrum tungum, sem benda til
annars, má endurgera þá íslenzku sögn sem frg. nh. *knijön (eða sem
*knewön og gera þá ráð fyrir e-stigi frie. rótarafbrigðisins *gneu-, sem
talið er liggja að baki sögninni knýja). Sú merking so. knjá, sem nú
er sýnd í handbókum, ‘ræða, hugleiða, rannsaka’, hefði þannig getað
orðið til úr barsmíðamerkingu eða lýsingu á líkamlegri áreynslu af öðru
tagi. A íslenzku er hægt að kryfja mál,þœfa mál, velta málifyrir sér og
jafnvel brjóta mál til mergjar, og þess vegna mætti hugsa sér, að knjá
mál hefði áður haft bókstaflegu merkinguna ‘hnoða mál’, ‘berja’ það,