Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Síða 103
Tilraun til greiningar á íslensku tónfalli
101
greinar eftir D.R. Ladd frá 1992 sem getið er í ritaskrá. (Önnur rit sem
að gagni mega koma fyrir þá sem vilja kynna sér rannsóknir á tónfalli
eru t.a.m. Crystal 1969, Bolinger 1985, 1989 og Cruttenden 1986.)
í þessu kerfi er gert ráð fyrir að lýsa megi tónfalli með hjálp afskap-
lega einfalds stafrófs, sem hefur að geyma tákn fyrir tvo tóna, sem geta
verið annað hvort hár H eða lágur L. Gert er ráð fyrir að þessir tónar
tengist ákveðnum stöðum í segðum, þannig að fyrirmælin sem fylgt
er þegar talað er (og gagnstætt: skilaboðin sem hlustandinn túlkar) eru
þau að á tilteknum stöðum í segðinni er tiltekinn tónn, ýmist lágur eða
hár. Þessi röð af tónum myndar síðan eins konar laglínu fyrir segðina.
í rauninni er verið að líkja tónfalli talmálsins við laglínur eins og við
þekkjum þær úr sönglögum og öðrum tónsmíðum. Allar laglínur eru
myndaðar úr tónum og takti, þ.e. á hverjum stað í taktinum er tiltekin
tónhæð gefin fyrir laglínuna (nema um sé að ræða þagnir, sem geta ver-
ið mikilvægar í tónverkum, en þá er aftur tekið fram hve löng þögnin
á að vera). Laglínan er sem sé röð af tónum, og form línunnar ræðst af
hæð tónanna og lengd þeirra, sem aftur ræðst af því hvenær skipt er um
tón, þ.e. hvenær næsti tónn byrjar. Svipað má segja um tónfall setninga.
Tónlínur setninga eru saman settar af tónum sem koma á ákveðnum
stöðum í talflóðinu. Munurinn er sá að tónstiginn sem talað mál fer eftir
er mun einfaldari eða frumstæðari en t.a.m. tónstigar áttundakerfisins.
Tóngildafjöldi þeirra tónstiga sem notaðir eru í tónlist er fræðilega séð
óendanlegur, en eins og þegar er nefnt telja menn að tveir tónar dugi
til að greina tónfallsform tungumála.
Þótt sjá megi viss grundvallarlíkindi með tónlist og tónfalli er samt
ekki ástæða til að gera of mikið úr þessum líkindum. Meðal þess sem
skilur á milli, og gæti virst grundvallaratriði, er að oft er gert ráð fyrir
því að tónar í tali geti verið „tvítónar“, þ.e. samband H og L, sem kemur
fram sem hækkun á tónlínunni eða hár tónn og svo snögg lækkun þar
strax á eftir, og samband L og H sem kemur fram sem lækkun eða lágur
tónn með tiltölulega snöggri hækkun á eftir, eins og nánar verður vikið
að. Ekki er, mér vitanlega, gert ráð fyrir slíku í tónlistinni, nema ef
vera skyldi í því sem nefnt er forslag og eftirslag (sjá Jón Þórarinsson
1963:108-9). Við þetta bætist að takturinn sem tónarnir eru settir eftir