Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Page 129
Tilraun til greiningar á íslensku tónfalli
127
stinga upp á því að LH tónninn tákni að um sé að ræða spurningu sem
krefst svars, en að L% tónninn tákni að segðinni sé lokið. Þannig spili
hinir „tónrænu“ eiginleikar saman til að tákna „opnun“ (þ.e. spurningu)
og „lokun“ (þ.e. lok segðar) hvora með annarri.
Ef það er einhvers konar „algildi“ að spurningar endi uppi er á vissan
hátt ekki við því að búast að rétt sé að greina spurningartónfallið eða
LH tóninn sem einhvers konar spurningarmyndan, því ekki er almennt
við því að búast að algildi nái til einstakra merkingarbærra eininga eða
morfema. En þegar litið er til þess að áherslutónninn LH myndar eins
konar sjálfstæða einingu sem staðið getur í „tónasambandi" með lágum
eða háum lokatóni er þó meiri ástæða til að kanna hlutverk hans sem
sjálfstæðs fyrirbrigðis og hluta af íslensku málkerfi (réttara sagt: máli
undirritaðs). Og vel má hugsa sér að sú málvenja geti skapast að nota
hann einkum í spurnarsetningum (og að það megi skýra „sögulega“
með því að spurningar kalla á andsvör). Á það var þó bent í tengslum
við umræðu um (19) að langt sé frá að fast samband sé milli LH tóna
og spurninga í íslensku.
Þótt tungumálin búi við einhvers konar algild lögmál sem setja því
skorður hvernig nota má tónfall til að tákna ólíka hluti, þá hefur hvert
tungumál eða mállýska sitt tónfallskerfi. Hlutir eins og sá misskilningur,
sem veldur því að Sunnlendingar halda stundum að Norðlendingar séu
skapvondir, sýna að mismunandi venjur skapast, og ólík tónfallskerfi
með ólíka skipun á tónum og hlutverki þeirra geta verið í ólíkum
mállýskum og tungumálum. Og þrátt fyrir allt hafa menn þóst finna
þess dæmi að ákveðnar tónfallslínur fái tiltekna merkingu, sem er
tiltölulega vel afmörkuð, og sú merking hlýtur að vera skilgreind af
málsamfélaginu, en ekki algildumlögmálum eingöngu. Tónfallsformin
í ensku sem talað er um í 1. kafla eru af þessari gerð.
Það er vel hugsanlegt að í íslensku séu til „tónfallsorð“ af þessu tæi
með sérstakri merkingu sem notuð er aftur og aftur. Sem dæmi mætti
taka tónfallsformið í (43), sem ég gæti notað til að koma til skila öfugri
merkingu við það sem setningin segir bókstaflega, þ.e. til þess að segja
að Jón sé í rauninni hundleiðinlegur: