Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1944, Blaðsíða 116
94
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
um var að ræða í kringum bjálkakof-
ana þar, sum til að ná hærri mentun
og sum til að vinna upp á sínar eig-
in spítur.
Kunningi minn spurði mig, hvar
mér hefði best liðið, eða best kunnað
við mig, síðan eg kom til þessa lands.
Svaraði eg þá með þessari vísu:
Lék þá flest við æðri óm,
yndi kjörin sýndu,
meðan ungu börnin blóm
við bjálkakofann tíndu.
Já, meðan þau voru öll heima, og
léku sér að blómum náttúrunnar,
höfðu ánægju af að hlusta á marg-
raddaða fuglasönginn, draga að sér
svala morgunloftið og horfa á dagg-
arperlurnar, sem glitruðu á trjánum
í sólargeislunum — áður en þau fóru
út í lífið. Þannig er áframhald lífs-
ins á jörðunni.
Síðan við fluttum til Winnipeg,
hafa einnig skiftst á skin og skugg-
ar. í maí 1933 mistum við 2 syni
okkar, Leif Columbus og Luther
Melankton, með aðeins 10 daga milli-
bili. Columbus dó hér í Winnipeg,
eftir langa sjúkrahússlegu, Luther
dó snögglega norður á Winnipeg-
vatni. Báðir þessir synir okkar voru
giftir. Columbus skildi eftir konu og
þrjú börn, Lúther ekkju og sjö börn.
Nú eru aðeins fjögur börn okkar lif-
andi: Carl Franklin, á Langruth,
Manitoba; Georg Fjölnir, á íslandi
(búinn að vera þar í 13 ár); Hjörtur
Björn, Indiana, U. S. og Laufey
Svava í Winnipeg. Öll eru þau gift,
nema Fjölnir. Við höfum ekki farið
varhluta af sorginni, en eitt megum
við þó vera þakklát fyrir: Ekkert af
börnum okkar hefir lent í vondum
félagsskap, og eru þau öll vel virt af
þeim sem þau hafa kynst, og er það
mikilsvert, því ekkert er sorglegra
en að missa börn sín út í vondan fé-
lagsskap.
Fyrst eftir að eg flutti til Winni-
peg vann eg að ýmsu, mest við bygg-
ingar, og umbætur á húsum, mínum
og annara. En svo kom að því, að eg
varð að hætta vinnu fyrir vanheilsu
og elli sakir, og þegar þau hjónaleys-
in leggjast á eitt, þá fer lífið að verða
þreytandi. Þessi staka datt mér í
hug rétt núna:
Eftir langvint æviskeið,
er það gömul saga,
að ellin verði öllum leið
og öðrum helst til baga.
Enn, sem komið er, lifum við á
okkar eigin sveita, í okkar eigin húsi,
sem dóttir okkar leigir. En svo er
nú að því komið, að tvisvar verður
gamall maður barn. Og þar sem eg
nú er níutíu og tveggja ára, eða þvi
sem nær, hlýtur að vera skamt að
hinstu vegamótum, sem eru þau al-
varlegustu vegamót allra dauðlegr3
manna, og draumsjón þeirra ofvaxið,
að vita með vissu, hvað þá tekur við:
því vonin er aðeins draumur vakandi
manns. En með reynslunni verður
sú gáta ráðin, eins og alt annað.