Hugur - 01.01.2008, Síða 40
38
Bryan Magee
mikinn stílista. Fyrir hvern þann sem hefur í raun og veru lesið verk hans væri
jafnerfitt að skilja shka hugmynd og suma hluta hinnar forskilvitlegu réttlætingar
frumhugtaka skilningsins í þekkingarfræði hans. Upphafsmaður nútíma raun-
hyggju og nútíma frjálslyndrar stjórnmálafræði, John Locke, er annar lykilmaður
í vestrænni heimspeki, en flestum finnst víst stíll hans leiðinlegur og tilþrifalítill.
Þessi dæmi - eitt frá hverju þeirra þriggja tungumála sem eru auðugust af
heimspeki - nægja til að staðfesta það atriði að gæði ritaðs heimspekitexta hefur
engin nauðsynleg tengsl við gildi hans sem heimspeki. Það er ekkert lögmál sem
kveður á um að ekki sé hægt að skrifa heimspeki vel, og sumir heimspekingar hafa
verið mjög góðir rithöfundar - nokkrir þeirra stórbrotnir rithöfundar - en það
stuðlar ekkert að því að gera þá betri heimspekinga. Platon er almennt álitinn hafa
skrifað besta gríska prósa sem varðveist hefur en það gerir hann ekki betri
heimspeking en Aristóteles, og fólk sem álítur hann vera það dáist ekki að honum
fyrir stílinn. I öllu falli þá vill svo til að verk Aristótelesar sem voru gefin út meðan
hann lifði voru dáð um allan hinn forna heim fyrir fegurð. Cíceró lýsti skrifum
Aristótelesar sem „gullfljóti“. En allt sem eftir er fyrir okkur eru minnispunktar
byggðir á um það bil einum íjórða hluta skrifa hans. Samt hefur heimspekin sem
þessir minnispunktar hafa að geyma haft ómetanlega þýðingu. I hinum þýsku-
mælandi heimi eru Schopenhauer og Nietzsche taldir vera í hópi bestu rithöfunda
á þýsku, jafnvel ekki síðri en sérhver hinna bestu fyrir utan Goethe. En þetta gerir
þá ekki betri heimspekinga en Kant.
Vitanlega skipta gæði skrifa máli fyrir lesendur. Það er yndi að lesa suma heim-
spekinga. Auk þeirra sem ég hef nefnt höfum við Berkeley og Hume á ensku;
Descartes, Pascal og Rousseau á frönsku; heilagan Ágústínus á latínu. Það er enn
ánægjulegt að lesa þessa heimspekinga í þýðingu. Nokkrir tuttugustu aldar heim-
spekingar hlutu, og það réttilega, Nóbelsverðlaunin í bókmenntum - Bertrand
Russell, Jean-Paul Sartre og Henri Bergson. Það liggur í augum uppi að girnilegra
er að lesa heimspekinga á borð við þessa en þá sem skrifa tyrfinn texta. En þeir
eru ekki betri heimspekingar þess vegna.
Eigum við þá að segja að stíll skipti ekki máli í heimspeki? Ég gæti ekki fengið
mig til að segja það. Það er vegna þess að ég tel að bæði skýrleiki og miðlun skipti
mjög miklu máli. Mér finnst það vera menningarlegur harmleikur að verk Kants
eru lesin af svo fáum öðrum en nemendum í heimspeki og kennurum þeirra. Þessi
verk eru leiðin til æðri sviða heimspekinnar - ekki ólíkt því hvernig örsmæða-
reikningur er leiðin til æðri stærðfræði. En ólíklegt er að jafnvel óvenjulega gáfaður
lesandi fái mikið út úr þeim nema hann hafi mjög trausta undirstöðu í heimspeki.
Macaulay var einu sinni send fyrsta þýðingin á ensku af Gagnrýni hreinnar skynsemi
og hann skrifaði þessa athugasemd í dagbókina sína: „Ég reyndi að lesa hana en
fannst hún óskiljanleg með öllu, rétt eins og hún hefði verið skrifuð á sanskrít [...]
Það ætti að vera gerlegt að útlista sanna frumspekikenningu á máli sem ég skil.
Eg skil Locke, Berkeley og Hume, og Reid og Stewart. Ég skil rit Cícerós um
heimspekilega efahyggju [Academicas] og mestallan Platon [...]”
Allir sem einhvern tíma hafa lagt stund á heimspeki í alvöru munu hafa skilning
á vandræðum Macaulays. Og það skýrir hvers vegna við munum aldrei vera í