Hugur - 01.01.2008, Side 44
42
Bryan Magee
var þörfin fyrir skýrleika í heimspekilegum skrifiim. Þetta var krafa sem þeir æfðu
sig aðdáanlega vel í að fullnægja, einkum Russell sem varð frábær rithöfundur, og
þeim tókst að fá heila kynslóð heimspekinga til að fylgja sér. Eins og Stuart
Hampshire3 komst að orði um stíl Russells: „Þetta er spurning um að flækja ekki
málin - að skilja ekki eftir neinar óskýrar brúnir; um þá skyldu að vera algerlega
skýr svo unnt sé að koma auga á villur; um að vera aldrei hástemmdur eða með
undanbrögð. Þetta er spurning um að falsa aldrei niðurstöður, að nota aldrei
mælskubrögð til að fylla í eyðu, að nota aldrei frasa sem stendur þægilega klofvega,
ef svo má að orði komast, yfir tveimur eða þremur nótum og tekur ekki af skarið
um hverja þeirra maður er að slá.“ Karl Popper sagði mér einu sinni að hann tæki
Russell sér til fyrirmyndar á sama hátt og Schopenhauer tók einu sinni Hume sér
til fyrirmyndar; og Popper sagði nokkuð sem ég hef aldrei gleymt: „Þetta er ekki
bara spurning um skýrleika, heldur spurning um siðferði fagstétta."
Schopenhauer er skarpasti greinandi ástæðnanna fyrir óskýrleika í heimspeki-
skrifum. Hann taldi óskýrleikann stafa af því að tveir annars óskyldir þróunar-
straumar runnu saman. Hinn fyrri var fagvæðing heimspekinnar. Nú tökum við
fagvæðinguna sem sjálfsagðan hlut, en í nokkur hundruð ár eftir að miðöldum
lauk var enginn hinna miklu heimspekinga háskólamaður. Gamalgrónir háskólar
héldu áfram að kenna heimspeki á þessu tímabili en hinir miklu heimspekingar
stóðu sjálfir allir utan háskólanna og enginn þeirra kenndi heimspeki - Hobbes,
Descartes, Spinoza, Leibniz, Locke, Berkeley, Hume, Rousseau. Eins og Schopen-
hauer orðaði það: „Mjög fáir heimspekingar hafa nokkurn tíma verið prófessorar
í heimspeki og hlutfallslega hafa jafnvel enn færri prófessorar í heimspeki verið
heimspekingar." Spinoza og Leibniz var báðum boðin prófessorsstaða en þeir
höfnuðu boðinu. Hume sótti um tvær prófessorsstöður en fékk hvoruga. Að mið-
öldum loknum var Kant hinn fyrsti óumdeilanlega mikli heimspekingur til að
gegna stöðu háskólakennara - en hann kenndi aldrei sína eigin heimspeki. Kant
og hinir frægu hughyggjumenn voru prófessorar en í kjölfar þeirra voru leiðandi
heimspekingar um miðbik og seinni hluta nítjándu aldar - sjálfur Schopenhauer,
Kierkegaard, Marx og Nietzsche - ekki háskólamenn og ekki heldur mesti breski
heimspekingur nítjándu aldar, John Stuart Mill. Tuttugasta öldin var fyrsta öldin
eftir miðaldir þar sem flestir framúrskarandi heimspekingar voru háskólamenn.
Fagvæðing heimspekinnar er ekki eldri en það.
Mjög nálægt upphafi þessa ferlis gerði Schopenhauer sér grein fyrir að það hlaut
að hafa vissar óæskilegar afleiðingar. Þess er ekki að vænta að á tilteknum tíma -
maður freistast til að segja á tiltekinni öld - séu fleiri en fáeinir virkilega frumlegir
hugsuðir í heimspeki. Hvernig ætla þá allir hinir meðlimir heillar fagstéttar að
geta sér góðan orðstír? Þar sem þeir eru háskólamenn að atvinnu byggist afkoma
þeirra á launum og eftirlaunum og hversu há þau eru byggist svo aftur á því hversu
hárri stöðu þeir hafa náð. Flestir þeirra eiga fyrir mökum og börnum að sjá. Hvað
3 [Stuart Hampshire (1914-2004) var enskur heimspekingur sem hafði sérstakan áhuga á heim-
spekilegum kenningum um frelsi og heimspeki hugans. A meðal verka hans eru Spinoza
(1951), Thought andAction (1959), Freedom and the Individual (1965) og Two Theories of Morality
(1977). Hampshire er einn af viðmælendum Magees í Modern British Philosophy (1971).]