Hugur - 01.01.2008, Page 60
58
Jón A. Kalmansson
leyndardómsfullar er í raun eðlilegur fylgifiskur þess að hugsa um þær, gera sér
þær fyllilega ljósar í vitundinni.24 Eða eins og William James orðar þá hugsun:
Maður þarf aðeins að loka sig inni í herbergi og taka að hugsa um þá
staðreynd að maður er þar, um undarlega lögun líkama síns í myrkrinu
[...] stórfurðulegan persónuleika sinn og hvaðeina til að undrunin leggist
yfir einstök atriði jafnt sem almennar staðreyndir verunnar, og maður sjái
að það er aðeins kunnugleiki sem slævir hana. Ekki aðeins að eitthvað
skuli vera, heldur að pessi tiltekni hlutur skuli vera er leyndardómur!
Heimspekin starir, en hefur enga röklega lausn, því frá engu til verunnar
er engin rökleg brú.2S
Hugsun hefst þegar heimurinn og tilvist manna í honum opinberast huganum
sem fullkomin ráðgáta og leyndardómur. A þessu byggist hæfileiki hugans til að
sjá hið óvenjulega í hinu hversdagslega. Allt sem hugsunin snertir eftir að slík
undrun kviknar hlýtur að taka lit af því upphafi. Líf hins hugsandi manns verður
aldrei samt eftir það. Því þótt hugarflugið geti búið til alls konar kynleg fyrirbrigði
í huganum, er máttur þess hverfandi miðað við veruleikann sjálfan. Imyndunar-
aflið rís því aldrei hærra en þegar við gerum okkur í hugarlund það sem er. Þess
vegna, segir Chesterton, hafa börn heldur enga þörf fyrir ævintýri þegar þau eru
mjög ung. Það dugar að segja þeim raunsæjar sögur af raunverulegu fólki og at-
burðum, vegna þess að í augum barnsins gæti ekkert verið makalausara en raun-
veruleikinn. Það er af þessari frumundrun barnsins gagnvart veruleikanum sem
ævintýri þiggja mátt sinn og aðdráttarafl fyrir menn. Og sú hugsun og tilfinning
að veruleikinn sé heilög sköpun, skapaður af óendanlega máttugri, guðlegri veru,
væri ekki möguleg nema vegna þess að veruleikinn getur skyndilega birst hugan-
um sem stórfengleg ráðgáta og opinberun. Hugmyndir fólks um tilvist og eðli
hins æðsta og ósýnilega veruleika, Guðs, nærast af þeim eiginleika mannskepn-
unnar að geta bókstaflega sundlað frammi fyrir mikilfengleik og leyndardómi þess
veruleika sem hún kynnist í reynslu sinni og hugsun.
Ef undrunin er eins þýðingarmikil og ég hef haldið fram, hvers vegna lifum við
þá flest eins og veruleikinn sé sjálfsagður og ekkert til að vera uppnæmur yfir? Án
efa eru ástæðurnar margar en hér verður látið nægja að nefna þrjár. Fyrsta ástæðan
er sú sem James nefnir í tilvitnaðri klausu: kunnugleiki og vani. Vafalaust á sá
hæfileiki okkar að geta vanist fljótt því sem er í umhverfinu sér góðar og gildar
þróunarlegar skýringar. Við erum praktískar verur sem láta lífsbaráttuna ganga
24 I bók um Zen-búddisma eftir D.T. Suzuki má lesa þessi orð: „[Zen] er dulrænt í þcim skiln-
ingi að sólin skín, að blómin blómstra, að ég heyri í þessari andrá einhvern slá trommu úti á
götu. Ef þetta eru leyndardómsfullar staðreyndir þá er Zen fullt af þeim [...] Því Zen birtist
í óáhugaverðasta og tilbreytingasnauðasta lífi venjulegs manns á götunni, mcð því að bera
kennsl á hvað það er að lifa mitt í lífinu eins og því er lifað. Zen þjálfar hugann skipulega til
að sjá þetta; það opnar augu manns fyrir hinum mesta leyndardómi eins og honum vindur
fram hvern dag og hverja stund [...] það lætur okkur lifa í heiminum eins og við gengjum um
í aldingarðinum Eden [...]“ D.T. Suzuki, An Introduction to Zen Buddhism, New York: Grove
Press 1964, s. 45.
25 William James, Some Problems of Philosophy, s. 1002-1003.