Hugur - 01.01.2008, Síða 126
124
Kristján Kristjánsson
II. Kristalssjálfið
Bók Kenneths J. Gergen, Ihe Saturated Self{ 1991), er hin elsta þeirra þriggja sem
hér verða ræddar og jafnframt sú róttækasta. Gergen býður upp á alþýðlega en
umfangsmikla „afbyggingu" á módernískum hugmyndum um sjálfið. Hann tekur
í raun upp hinn sögulega þráð þar sem Charles Taylor skildi við hann í margfrægri
bók sinni Sources of the Self{ 1989) - þótt nafn Taylors komi ekki fyrir í heimildaskrá
- og spinnur hann áfram í átt til samtíðarinnar. Niðurstaða Gergens er sú að hafna
beri móderníska sjálfinu en laga sig í staðinn að hugmyndum um póstmódernískt
sjálf. Hann hefur skrifað fleiri rit og ritstýrt öðrum um sjálf og sjálfshvörf á póst-
módernískum tímum.
(a) Fræðilegarforsendur. Aðferðafræði Gergens byggist á verufræðilegri and-
hluthyggju og þekkingarfræðilegri afstæðishyggju. Þessar „hyggjur" þarf ekki að
kynna í smáatriðum fyrir lesendum Hugar, ávæningssaga dugar: Það er ekki til
neinn hlutveruleiki sem við getum fangað. Fólk skynjar umheiminn og tekur hug-
artökum frá ólíkum samræðubundnum sjónarhornum; engir sammannlegir mæli-
kvarðar eru til. Sjónarhornin ráðast af valdsafstöðu sjáendanna - í anda greiningar
Foucaults — og leiða af sér ósammælanlega „sannleikssiði". Einn helsti dreki hins
forna og úrelta módernisma sem Gergen ræðst til atlögu við er hugmyndin um
afmarkað, stöðugt, sjálfu sér samkvæmt, skynsamt og trútt sjálf. Það er ekki til
neinn hlutbundinn sannleikur um einstaklinga sem unnt er að leiða í ljós með því
að rýna í innsta eðli þeirra. Hugtök á borð við „sjálfsfirringu“, „sjálfsblekkingu",
„sjálfskreppu" og „sjálfsþekkingu" tilheyra afvegaleiddum módernisma og ber að
leggja til hliðar (Gergen, 1991, s. 13,187). Móderníska táknmyndin um einstalding-
inn sem „fer að heiman" á unglingsárum til að „finna sjálfan sig“ og berst síðan
stöðugt við sjálfsfirringu (Taylor, 1989) gerir ráð fyrir tilvist alvörusjálfs sem ein-
staklingurinn getur týnt og fiindið aftur í stíl syndafalls og endurlausnar. En Ger-
gen hamrar stöðugt á því að ekkert slíkt sjálf sé til.
(b) Sjá/fskenning. Sé goðsögnin um hið sanna sjálf lögð fyrir róða, hvað kemur
þá í hennar stað? Gergen segir okkur sögu af koðnun módernísku sjálfshug-
myndarinnar og upprisu hinnar póstmódernísku. I síð-módernismanum belgdist
sjálfið út af nýjum vaxtarvonum og möguleikum uns það sprakk. Lífið varð kram-
búð þroskakosta. Þetta leiddi af sér það sem Gergen kallar „fjölvæðingu sjálfsins“:
aðlögun þess að margvíslegum birtingarformum, sem skarast á ýmsa vegu, og
tilurð brota-sjálfa. Sjálf urðu samlíki hvert annars eða stálu brotum hvert frá öðru.
Svo að reynt sé að fylgja Gergen eftir þá nefnir hann síðari stig þessa ferlis
„fjölrænu": splundrun einstaldingssjálfsins í ólíkar og oft innbyrðis ósamkvæmar
sjálfs-skuldbindingar. En þessi stig leikræns, kaldhæðins og ógagnrýnins póst-
módernisma eru ekki endimörkin í þróun hins póstmóderníska sjálfs. Nú hefiir
tekið við lokastigið: gagnrýninn póstmódernismi félagslegra samskipta og virkrar
samveru sjálfa þar sem við veljum okkur nærhóp tímabundið og lögum okkur að
honum (Gergen, 1991, s. 49, 69, 71, 73,147,156; sjá einnig Kristján Kristjánsson,
2002, s. 189-190).