Hugur - 01.01.2008, Qupperneq 148
146
Hjörleifur Finnsson og Davíð Kristinsson
Draga má í efa að frönsk tunga sameini ríkustu og fátækustu úthverfi Parísar.
Meirihluti Frakka skilur kaldhæðni rithöfundarins Anatole France sem í lok nítj-
ándu aldar komst svo að orði: „Mikilfenglegt jafnrétti laganna bannar ríkum jafnt
sem fátækum að sofa undir brúm, betla á götum úti, og að stela brauði."9 Enda
þótt tungumálið geri ólíkum stéttum og hópum í Frakklandi kleift að skilja þessa
setningu breytir það litlu um óh'k lífsskilyrði íbúa landsins. Franski félagsfræð-
ingurinn Pierre Bourdieu hefur gagnrýnt þjóðtungurómantík af meiði Einars
Más. Bourdieu gagnrýnir þá hugmynd nítjándu aldar heimspekingsins Auguste
Comte að tungumálið sé sameiginlegur fjársjóður málsamfélags sem allir eigi
hlutdeild í, en þessa sameignarhugmynd álítur Bourdieu dæmigerða „tálsýn um
málvísindalegan kommúnisma“.10 Með þetta orðalag Bourdieus í huga mætti
kannski segja að í Bréfi til Maríu sé ginning „þjóðtungukommúnismans" sam-
tvinnuð „þjóðmenningarkommúnisma“ en hvorttveggja sameinar alþýðu atvinnu-
rekendum og stjórnmálamönnum.
I þessum þjóðríkjum þar sem menntun var á háu stigi stóð alþýða and-
spænis atvinnurekendum sem höfðu sömu tungu og menningu og hún,
þannig að hvorir gátu í rauninni skilið aðra og höfðu svipaðar viðmiðanir.
Atvinnurekendur höfðu auk þess ekki í nein önnur hús að venda, þeir
bjuggu innan sömu landamæra og annar almenningur. Sama gilti um
stjórnmál: almenningur hafði aðgang að þeim sem fóru með völdin,
þingmönnum, ráðherrum og öðrum, og því betri sem réttindi hans jukust
meir. Fulltrúar lágstétta komust í valdastöður og hösluðu sér völl í þjóð-
félaginu. Þess vegna varð verkalýðsbaráttan skipuleg, hún fylgdi ákveðn-
um reglum, og í öllum sviptingum hennar fór gjarnan svo á endanum að
báðir aðilar höfðu jafnframt hag heildarinnar fyrir augum. (321)
Það að tala um „hag heildarinnar“ eða „almenningsheill" (27) jafngildir því að gera
ráð fyrir að til séu gæði sem séu öllum sameiginleg óháð hagsmunum, valda-
tengslum, menningarlegri og pólitískri stöðu hópa og einstaklinga." Slíkur „þjóð-
arkommúnismi“ tryggir það að fyrirtækjarekstur innan þjóðríkisins er, ólíkt
alþjóðavæðingunni, ekki kapítalískur heldur jafn samheldinn og tungumálið.
Innan ramma þjóðríkis fer því rekstur fyrirtækja í ákveðinn farveg: mark-
miðið er ekki að græða sem mest á sem stystum tíma heldur hafa öruggt
lifibrauð til frambúðar og veita sér og öðrum atvinnu. (321)
9 Anatole France, Les Lys Rouge, 1894.
10 Pierre Bourdieu, Ce queparler veut dire. L’économie des échanges linguistiques, París: Fayard 1982,
s. 24.
11 Þetta er nokkuð í anda skynsemishyggju Rousseaus sem gerir greinarmun á „vilja allra“ og
„almannavilja“. Almannavilji tjáir hinn sanna hag allra og er til óháð vilja allra, sem er vilji
sem tjáir ekki skynsemina. Almannaviljinn er hins vegar samhverfur skynseminni og tjáir því
hag allra jafnvel þótt allir vilji annað. Sjá Samfélagssáttmálann, þýð. Björn Þorsteinsson og
Már Jónsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2004, s. 91-94.