Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2010, Blaðsíða 230
umhverfisskýrslu sinni niðurstöður efnamælinga á vatni á veitusvæðum sínum-
Orkuveitan er hins vegar ekki opinber eftirlitsaðili heldur söluaðili. Auk þess eru þeirra
mælingar úr sýnum sem aðeins eru tekin við vatnsból eða í meginstofnæðum veitnanna.
Lokaorð
Blýmengun getur valdið varanlegu heilsutjóni, sérstaklega hjá börnum. Blýmengun í
drykkjarvatni á rætur sínar að rekja til þeirra efna sem notuð eru í neysluvatnslagna-
kerfum. Þessi rannsókn greinir frá og leitar orsaka blýmengunar sem kom upp í neyslu-
vatni á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli eða Ásbrú, eins og svæðið er kallað í dag, og
kannar hvort hætta sé á blýmengun í bæjarfélögum á suðvesturhorni íslands. Gerð var
ítarleg leit að húsum með eirlögnum sem settar voru saman með blýblönduðu tini. Slíkar
lagnir ollu blýmenguninni á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma. Sýni voru
tekin úr vatni sem hafði legið a.m.k. sex klukkustundir í húsalögnum með fyrstu bunu
aðferð. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að útbreiðsla lagna með blý-
blönduðu tini virðist vera óalgeng utan Ásbrúar. Þrjátíu og tvö vatnssýni greind í fjórum
mismunandi bæjarfélögum árið 2009 sýndu að blýinnihald var í öllum tilfellum vel undir
heilsuverndarmörkum. Lágt blýinnihald vatns virðist að miklu leyti ráðast af flóknu
samspili eðlis- og efnafræðilegra eiginleika drykkjarvatns á gosbeltinu suðvestanlands,
samspili sem þarfnast frekari rannsókna. Niðurstöðumar benda til þess að íblöndun
klórs og/eða flúors geti aukið blýmengun í neysluvatni þar sem lagnir og eiginleikar
vatnsins eru svipaðir og á Ásbrú. Mikilvægt er að hafa þessa hættu í huga komi einhvern
tíma til þess að sóttverja eða flúorbæta íslenskt vatn með svipaða efna- og eðlisfræðilega
eiginleika og vatnið í Ásbrú. Rannsóknin styður erlendar rannsóknir um að lágt sýrustig
í vatnsveitum geti aukið líkur á blýmengun. Ekki var hægt að sýna fram á að notkun
blýblandaðs tins hafi aukið hættu á blýmengun í neysluvatni umfram önnur pípu-
lagningarefni sem innihalda blý á þeim rannsóknarsvæðum sem voru rannsökuð í þessu
verkefni. Islenska reglugerðin um neysluvatn er veikari en samsvarandi reglugerðir í
Evrópusambandinu og Bandaríkjunum hvað varðar eftirlit á blýmengun. Á íslandi er blý
hluti af almennu eftirliti þar sem sýni em tekin eftir að vatn hefur verið látið renna. I
Bandaríkjunum er hins vegar gerð krafa um séreftirlit með blýi og sýnatöku-aðferðin
tekur sérstaklega mið af því að safna fyrstu bunu, þ.e. því vatni sem legið hefur lengi í
heimaæðum húsa og hefur þar með haft mestan tíma til þess að leysa upp blý. Jafnframt
er upplýsingagjöf til íslenskra neytenda um ástand vatnsins ábótavant. Þar sem blý
virðist geta mengað vatn í ýmsum algengum lagnagerðum mætti forvarnarstarf miða að
því að upplýsa almenning, sérstaklega börn, um mikilvægi þess að drekka ekki fyrstu
bunu á morgnana. Þar með væru minni líkur á að mengun frá pípulagningaefnum innan-
húss berist til neytenda, óháð aldri eða staðsetningu húsa.
Þakkir
Rannsóknin var styrkt af Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Að
auki fékkst styrkur frá samfélagssjóði Alcan (Rio Tinto Alcan) í Straumsvík. Matís er
þakkað fyrir samstarf í efnagreiningum. Fjölmargir einstaklingar veittu ómetanlega að-
stoð og innlegg í rannsóknina. Sérstaklega skal þakka eftirtöldum aðilum sem vitnað er í
vegna munnlegra heimilda: Bergi J. Sigfússyni, doktori í jarðefnafræði; Eysteini
Haraldssyni, bæjarverkfræðingi í Garðabæ, og fyrrverandi deildarverkfræðingi jarð-
vinnudeildar ÍAV við byggingu Skógarbrautar 1101-1114; Gottskálk Friðgeirssyni,
fyrrverandi sviðsstjóra eiturefnasviðs hjá herstöðinni; Ragnari Darra Hall, fyrrverandi
neysluvatnseftirlitsmanni hjá Umhverfisdeild Varnarliðsins (frá 2001) og síðar vatns-
veitustjóra Varnarliðsins þar til herstöðin var lögð niður.
2 2 8
Arbók VFl/TFl 2010