Helgafell - 01.04.1944, Page 40
22
HELGAFELL
og skylt að láta nú í ljós, það sem ég veit um afskipti hans af fánamálinu.
Það var kona mín, sem trúði mér fyrir því, — en hún var systurdóttir
Hannesar og fósturdóttir Ragnheiðar og Hannesar Hafstein frá því hún
fermdist og þar til við giftumst, — að móðurbróðir sinn hefði, þegar hann
var bæjarfógeti á Isafirði, varið mörgum tómstundum sínum til þess að kynna
sér fánamál þjóða og til þess að gera uppdrætti að íslenzkum fána, og hafi
hann haft sérstakar mætur á uppdrætti, sem hann hafði dregið upp af blá-
um fána með rauðum krossi hvítjöðruðum, og borið þá gerð sérstaklega undir
álit konu sinnar, sem hafði þótt flaggið einkar fallegt.
Við Hannes Hafstein ræddi ég ekki fánamálið fyrr en fánanefndin hafði
lokið störfum sínum, og staðfesti hann þá frásögn konu minnar, og sagði
mér, að hann hefði sérstaklega hugsað um fána fyrir Island, er hann var
sýslumaður á lsafirði. Hefði sér þótt rétt, að íslenzki fáninn væri krossfáni,
eins og Norðurlandafánarnir hinir, og þá þrílitur eins og fáni Norðmanna, því
í íslenzkum fána ætti fyrst og fremst að vera þjóðliturinn blái og svo litir íss
og elds, þ. e. hvítur litur og rauður, en rauði liturinn væri og litur kærleik-
ans. Tók Hannes Hafstein fram, að frá fánauppdrætti sínum hefði hann
engum sagt nema konu sinni og máske dætrum, enda mættu persónulegar
tilfinningar engu ráða í þessu mikla velferðarmáli, og framar öllu væri sér
umhugað að leiða fánamálið farsællega til lykta, og mundi hann í öllu
hlíta vilja Alþingis og leggja þá fánagerð fyrir konung til staðfestingar,
sem Alþingi kysi. Spurði ég að því, hvort konungur hefði viljað ráða nokkru
um lit og gerð íslenzka fánans, og svaraði Hafstein því eindregið neitandi,
en vísaði um synjun konungs á því að staðfesta fyrir Island þjóðfána, blá-
an með hvítum krossi, til þess er konungur hafði sagt í ríkisráði 22. nóv. 1913
um gerð hinna grísku fána. 1 því sambandi sagði Hafstein mér frá því,
að konungur hefði í gamni sagt á þá leið við sig persónulega, en ekki sem
ráðherra, ,,að þó sér væri vel við frænda sinn Grikkjakonung og vildi, að
fáni hans blaktaði yfir eyjum í Grikklandshafi, þá gæti hann ekki unnt hon-
um þess að láta fána hans og blakta yfir eyjunni í Atlantshafi".
Fáninn þríliti hefur nú í tæp 30 ár blaktað yfir okkur íslendingum sem
innsigli þjóðernis og sjálfstæðis. Á þessum árum hafa orðið stórfelldari fram-
farir hér á.landi en á nokkrum öðrum mannsaldri, síðan land þetta var
byggt, að landnáminu sjálfu undanteknu. Undir íslenzka fánanum hafa sjó-
menn okkar siglt og munu sigla. Undir honum hafa þeir fallið og úthellt
blóði sínu, sem rauði liturinn mætti yel minna okkur á, svo að fáninn verði
okkur enn kærari og enn helgari en hann þegar er orðinn.
Þótt bili hendur, er bættur galli,
ef merkið stendur, þótt maðurinn falli.
Júl. Havsteen.