Helgafell - 01.04.1944, Side 41
BJÖRN SIGURÐSSON:
Þekkmg og þjóðfrelsi
Sjálfstæðishugvekja
VÉR lSLENDINGAR höfum átt heima ,,langt frá öðrum þjóðum“, fram
á síðustu tíma. Sú menningarlega einangrun, sem af því stafar, hefur verið
mjög höfð á orði og kölluð meginorsök þess, hve mjög vér höfum verið eftir-
bátar annarra um flestar verklegar framkvæmdir og ýmis menningarmál.
Mér hefur virzt of mikið úr þessu gert. Islendingar hafa lengi verið allra
manna víðförlastir. Eg efast um, að nokkur önnur þjóð geri sér jafn fjöl-
förult erlendis og einmitt vér. Mjög mikill hluti þeirra manna, sem mest
kveður að í þjóðfélaginu, hefur dvalið langdvölum í öðrum löndum.
Sjálfsagt er það m. a. vegna þess, hversu margir Islendingar standa
öðrum fæti í erlendri mold, ef svo mætti segja, eða öllu heldur á erlendu
malbiki, að uppeldi og skoðunum, að oss er ákaflega gjarnt að bera þjóðlíf
vort saman við annarra manna háttu og land vort saman við önnur lönd.
Þetta er að ýmsu leyti hollt, en öðrum þræði sérlega varasamt.
Sá, sem kemur út fyrir landsteinana í fyrsta sinni, hlýtur að leggja ís-
lenzkan mælikvarða á allt, sem fyrir ber, hvort sem hann gerir sér það ljóst
eða ekki. Húsin eru hærri en heima, trén tígulegri, loftið ógagnsærra. Síðar
bregðast flestir svo við, að minnsta kosti eftir að heim kemur, að þeim hættir
við um of að leggja erlenda mælistiku á íslenzka háttu. Þeim sýnist íslend-
ingar fáir og fátækir, ósamlyndir og klaufskir við allar framkvæmdir.
Nú er það svo, að hverjum hlut hæfir sinn mælikvarði. Flestir þeirra,
sem utan fara, kynnast aðeins yzta borði þess þjóðlífs, sem þeir hafa gis.t,
og eru því tæplega jafn dómbærir um kosti þess og löstu og þeir sjálfir
halda. Þegar við bætist, að óvarlegt er að dæma í slíkum efnum án þess
að þekkja og taka til greina forsögu og þróun hvers þjóðfélags, verður niður-
staðan oft sú, að sá erlendi mælikvarði, sem Pétur og Páll leggja á störf vor
og menningu, er ekki mikilsvirði.
Þessu er öllu farið mjög á annan hátt með öðrum og stærri þjóðum.
Bandaríkjamaður, Þjóðverji eða Englendingur hættir tæplega að líta hlutina
bandarískum, þýzkum eða enskum augum, þótt hann dvelji um hríð meðal
framandi þjóða. Trú slíks einstaklings á þjóðlega menningu sína gerir honum
naumast fært að sjá menn og málefni öðruvísi en gegnum gler þjóðernis síns.
Frá þessu eru vitanlega margar og merkar undantekningar, því að skoðanir